Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Sjálfsmorð

Síðan kreppan skall á, fyrir rúmum tveimur mánuðum síðan, hefur mikið verið talað um krónur, evrur, pund, dollara, verðtryggingu, vexti og ábyrgð hinna og þessa. Ég man ekki eftir að hafa séð neina frétt um andlega heilsu þjóðarinnar. Það má vel vera að ég hafi misst af því, en málið er að við erum að stara svo mikið á peningana, eða vöntun á þeim, að við gleymum okkur sjálfum og hvoru öðru.

Skammdegið er skollið á. Þetta er erfiður tími fyrir marga í venjulegu árferði. Sjálfsmorðstíðni á Íslandi er með því hæsta sem gerist. Hefur einhver skoðað hvað er að gerast núna í kjölfar hrunsins? Er þeim að fjölga eða megum við eiga von á holskeflu eftir áramót?

Málið er að þegar einn maður tekur líf sitt, er það ekki hans einkamál. Hann dregur fjölskylduna, börn, forelda, systkyni og ástvini með sér inn í heim vonleysis. Það er líklegt að börn þeirra sem eigið líf taka muni aldrei ná sér að fullu. Eins og árar, megum við ekki við fjöldasorg á Íslandi í vetur.


mbl.is Mikið sótt í úthlutun fyrir jólin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

✝ Guðgeir Sumarliðason - minningargreinar

Guðgeir Sumarliðason var fæddur á Feðgum í Meðallandi, V-Skaftafellssýslu, 2. apríl 1929. Hann lést 19. október á deild 11-E á Landspítalanum við Hringbraut. 

Foreldrar hans voru Sumarliði Sveinsson, f. 10.10. 1893 á Undirhrauni/Melhól, Meðallandi, d. 22.2. 1992, og kona hans Sigríður Runólfsdóttir, f. 1.12. 1899 í Neðra-Dal, Biskupstungum, frá Bakkakoti í Meðallandi, d. 16.8. 1986. Bróðir Guðgeirs er Sveinn, f. 3.9. 1922 á Feðgum, d. 9.8. 2002, bílstjóri í Þorlákshöfn. Hans börn: Þorvaldur Geir, Dagbjartur Ragnar og Halldóra Sigríður. 

Feðgar var torfbær sem stóð sunnanvert við Eldvatnið. Fjölskyldan fluttist þaðan vegna ágangs sands 1945. Þau fór til Hveragerðis og byggðu sér þar hús sem þau nefndu einnig Feðga, það var í Heiðmörk 51, seinna 28. Þá var Guðgeir 16 ára en Sveinn bróðir hans tæpra 23ja ára, fjölskyldan gisti að mestu í tjaldi á lóðinni þar til hægt var að flytja inn í nýja húsið í september. Sumarliði og Sigríður bjuggu þar svo til ársins 1985, er þau fluttu til sonar síns í Bitru. 

Í Hveragerði starfaði Guðgeir m.a. við byggingu Ölfusárbrúar og var með vörubíl að leggja veginn út í Selvog og var handmokað á og bílstjóranum ekki gerð nein undantekning. Skólabílstjóri var hann í Hveragerði og var þá ekki mikið eldri en elstu börnin. 17.4. 1954 kvæntist Guðgeir Hrefnu Ólafsdóttur, f. 9.1. 1932 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Ólafur G.H. Þorkelsson vörubílstjóri í Reykjavík, f. 16.11. 1905 á Ísafirði, d. 26.10. 1980 í R, og kona hans Guðrún H. Þorsteinsdóttir, f. 9.9. 1911 í  Vestmannaeyjum, d. 28.6. 1987 í Reykjavík.

Hann var góður penni og ritaði greinar í ýmis tímarit um áhugamál sín. Og ætíð ferðapistla um ferðir sínar með Samkór Selfoss þar sem hann söng bassa í fjölda ára og söng í kirkjukór Hraungerðiskirkju og var þar sóknarnefndarformaður. Eftir að þau hjón fluttu suður gekk hann til liðs við Árnesingakórinn í Reykjavík sem mun syngja honum til heiðurs við útförina. Guðgeir og Hrefna bjuggu í Reykjavík þar sem hann starfaði lengst af á Bæjarleiðum við leigubílaakstur, Guðgeir fékk ungur vélstjóraréttindi (pungapróf). Var hann á síld eina vertíð og seinna með tengdaföður sínum á mb. Hafþóri um tíma. 1972 söðlaði hann um og gerðist bóndi í Bitru í Hraungerðishreppi, Árn. Þau brugðu búi 2002 og fluttu þá á Bjarnhólastíg 24, Kópavogi, það hús ber einnig nafnið Feðgar. 

Börn Hrefnu og Guðgeirs eru 1) Jenný Kristín, f. 24.3. 1952, m. Hjörtur Hans Kolsöe, f. 22.2. 1953, börn: a) Halldór Úlfar, f. 8.2. 1973, sbk. Sara Sturludóttir, f. 18.7.1979, barn: Aron, f. 13.8. 2003, b) Arelíus Sveinn, f. 6.12. 1975, kona: Arna B. Boonlit, f. 1.1. 1982, barn: Sara Fönn, f. 6.9. 2001, og Guðgeir Hans, f. 8.3. 1982, 2) Sigrún f. 9.8. 1953, m. Ásgeir R. Sigurðsson, f. 27.2. 1948, d. 16.1. 1983, börn: a) Vilhjálmur Geir, f. 10.5. 1969, kona: Miriam Geelhoed, f. 5.10. 1972, barn: Mats Kilian, f. 27.1. 2007, b) Ásdís, f. 12.1. 1972, sbm. Eyþór Grétar Birgisson, f. 17.3. 1961, börn: Kristín Viðja, f. 11.6. 1994, og Karen Ósk, f. 23.3. 2003, sbm. SG Ólafur Ágúst Lange, f. 5.4. 1955, 3) Edda Lára, f. 24.9. 1954, börn: a) Helena Dögg, f. 23.7. 1973, barn: Tinna Líf, f. 12.1. 1998, b) Geir, f. 23.12. 1982, sbk. Bai Ying Ge, f. 26.8. 1987 og c) Arnar f. 8.12. 1988. 4) Auður Rut, f. 19.5. 1959, barn: Hrefna Líf, f. 28.7. 1986, 5) Þorkell Kristján, f. 28.4. 1962. Guðgeir verður jarðsunginn frá Hjallakirkju í dag kl. 11. 

Elsku „pabbaskat“. 
Mig langar að minnast þín með fáeinum orðum. Þú varst sá blíðasti og besti maður sem ég hef nokkurn tíma kynnst. Þú varst ekki margmáll en afskaplega fróður og vel lesinn maður, alltaf boðinn og búinn að rétta hjálparhönd ef á þurfti að halda. Svo lengi sem ég man eftir mér notaðir þú aldrei skírnarnafn mitt, þú ávarpaðir mig aldrei öðruvísi en með gælunafninu sem þú gafst mér þegar ég kom frá Danmörku eftir hjartaaðgerð aðeins 6 ára gömul. En því miður tók það mig 35 ár að vita hvað þetta orð þýddi, ég hélt einfaldlega að þetta væri bara gæluorð sem þú hefðir fundið upp handa mér, og mér fannst alltaf svo vænt um það, og ég var komin yfir fertugt þegar ég vissi hvað þetta orð þýddi, fjársjóður, ekki minnkaði væntumþykjan ánafninu og þér við það. Þú varst mikill og góður söngmaður og söngst í kórum lengst af. 

Þú varst alltaf á móti því að sálmar væru styttir. Vildir helst syngja þá í fullri lengd, svo að í kistulagningunni þinni var Ó, Jesú bróðir besti sungið í fullri lengd og ekkert múður, þannig hefðir þú viljað hafa það. 

Elsku pabbaskat, þín er sárt saknað af mér og minni fjölskyldu, Helenu, Tinnu, Geir og Arnari. 

Hvíl í friði, elsku pabbi minn. 
Þín „Lilleskat.“ 
Edda Lára. 



Guðgeir átti djúpan róm og dug í sinni og rætur austur á skaftfellskum söndum. Hann stundaði söngnám hjá Ingveldi Hjaltested og söng að staðaldri í tveim kórum. Ég kynntist honum meðan ég bjó á Flúðum og þangað kom hann úr hinum enda þessa söngglaða héraðs í söngtíma til kennarans og til að fá undirleik hjá mér. Nágrannar urðum við síðar og góðir vinir. Hann unni arfinum okkar sameiginlega, ljóðunum sem lögin prýddu eins og sögum af lífsþrautum og sigrum. Hann bjó yfir hógværð og festu.

Mæt er minning þessa góða drengs. 
Ingi Heiðmar Jónsson. 
 
 

Elsku Guðgeir. Það er komið að kveðjustund. Það var einkennileg tilfinning hér um árið þegar ég var á leið austur til ykkar Hrefnu til að dvelja hjá ykkur langdvölum. Ég hafði aldrei séð ykkur áður. En móttökurnar voru ekki slæmar, þið tókuð mér á allan hátt opnum örmum. Elsku Guðgeir, hvað þú varst mér góður þennan tíma, tókst mér sem þinni eigin dóttur. Það stytti stundirnar að fá að fara með þér í fjósið og gefa kálfunum, það var toppurinn á tilverunni í þá daga. Ég á eftir að sakna þín. 

Elsku Hrefna, Jenný, Sigrún, Edda Lára, Auður og Þorkell, Guð blessi ykkur öll og fjölskyldur ykkar. Minningin um gullmolann ykkar lifir. 

Kveðja, 
Björg Benjamínsdóttir. 



Með þessum fáu línum vil ég minnast Guðgeirs Sumarliðasonar. 

Ég kynntist Guðgeiri og hans fjölskyldu þegar ég var 11 ára eða fyrir 43 árum og leita því margar góðar minningar á hugann. 

Mér var tekið svo vel af Guðgeiri og Hrefnu að það var eins og ég væri fjölskyldumeðlimur, en svona var Guðgeir. 

Guðgeir hafði þann eiginleika að öllum leið vel í návist hans. En nú er kallið komið eftir veikindi síðustu ár. Ég er þess fullviss að svo góður drengur fær góðar móttökur á nýjum stað. 

Hrefna mín og þið öll. Megi Guð og góðar vættir styðja ykkur í ykkar sorg.
Margrét E. Kristjánsdóttir. 
Sigurður Pálsson. 
 
 

Ég vaknaði upp við vondan draum í London fyrir 15 árum. Mig dreymdi að þú værir farinn. Þú, af öllum. Ég var svo langt í burtu og ég átti þér svo margt að þakka. Sem betur fer var þetta draumur. Þegar ég hringdi í þig var allt í lagi. Þegar ég kom heim naut ég þess að vera nálægt þér. Ég vissi hvað ég var heppinn að þekkja þig.

Ég sagði þér aldrei frá því hvað mig dreymdi. Það skipti ekki máli. 

Fyrir rúmum tveimur árum vissum við að eitthvað var að. Vissum ekki hvað það var en þér leið illa. Þegar ég kom heim um sumarið vildi ég fara með þig austur í Meðalland svo þú gætir séð æskuslóðirnar einu sinni enn en þú varst of veikur. Sem betur fer náðir þú þér aftur. Þú gast notið lífsins þótt óveðursskýin neituðu að hverfa. Þegar fólk spurði hvernig ég hefði það, hvernig gengi, minntist ég aldrei á þig. Ekki vegna þess að ég vildi það ekki, ég vildi öskra til alheimsins að þarna færi fallegasta manneskja sem ég hef nokkru sinni kynnst. Ég vildi segja öllum heiminum að lífið væri óréttlátt gagnvart þeirri manneskju sem átti það síst skilið. Að ég hefði glaður skipt við þig, tekið á mig krabbameinið og barist fyrir þig. 

Ég sagði þér aldrei að allt sem ég hef gert síðan var fyrir þig. Mitt líf eins og það leggur sig var, er og verður tileinkað þér. Ég væri ekki sá sem ég er án þess að hafa kynnst þér og lært af þér. Allt það góða sem ég reyni að tileinka mér á ég þér að þakka. 

Ég er óendanlega þakklátur fyrir að hafa fengið að sýna þér Mats Kilian og sjá þig halda á honum. Ég mun aldrei gleyma litla augnablikinu áður en þið fóruð frá Skotlandi og þú komst inn í herbergi þar sem hann lá sofandi. Ég mun aldrei getað þakkað þér almennilega fyrir það en þess þarf ekki. 

Ég vildi að ég gæti verið hjá þér en þú ert kominn á betri stað þar sem þú þarft ekki að þjást. Þú munt lifa í hjarta mínu svo lengi sem ég lifi. 

Takk fyrir allt og Guð blessi þig. 
Vilhjálmur Geir Ásgeirsson. 



Nú er horfinn yfir móðuna miklu hjartkær vinur, svili og mágur Guðgeir Sumarliðason. Margir góðir kostir prýddu þennan dáðadreng. Hann hafði óvenju tæra og fallega söngrödd sem við nutum oftlega á góðum fundum á heimili hans og Hrefnu, konu hans, um leið og við nutum ríkulegra kræsinga á heimili þeirra. 

Guðgeir var mikill og einlægur trúmaður þar sem hann efaðist aldrei um tilveru og handleiðslu guðs og fannst öllu best borgið í hans hendi. Enda gaf hann kirkju sinni í Hraungerðishreppi mikið af sínum tíma sem formaður sóknarnefndar, forsöngvari, oft á tíðum einsöngvari, bæði þar og í öðrum kirkjum og taldi það ekki eftir sér. Kórmaður var hann mikill og söng með kirkjukór, samkór og karlakór enda lauk hann þriðja stigi í söngskóla á seinni árum sínum. 

Nærvara hans var einkar notaleg þar sem hógværð í fasi og orðum var gjarnan í fyrirrúmi. Áhugi og meðferð á íslenskri tungu var honum hugleikin og hafði hann áhrif á aðra í kringum sig hvað tunguna varðaði. Lagði oft til sínar hugmyndir til ýmissa útvarpsþátta í þeim efnum. Þá var hann mjög góður penni og skrifaði margar greinar í blöð og tímarit, einkanlega um þjóðleg mál. 

Guðgeir var sérlega skemmtilegur ferðafélagi, hvort sem var í fjallaferðum á vetrum eða sumarferðum þar sem hann var sérlega fróður um landið og sögu. 

Eitt sem lýsir Guðgeiri var elja hans við leitina að staðsetningu Hólmaselskirkju í Meðallandi, sem fór undir hraun í Skaftáreldum 1784. Saga þessarar kirkju og gossins var rík í huga hans, eins og annarra sveitunga þar. Kirkjan hafði verið flutt af upprunalega stað sínum, til Hólmasels, vegna uppfoks neðar í sveitinni, nokkrum árum áður með mikilli fyrirhöfn sóknarbarna. Þegar hraunflóðið stefndi að Hólmaselsbænum og kirkjunni flúði prestur með allt sitt, læsti kirkjunni en skildi eftir alla kirkjumuni og klukkuna, sem var forláta gripur fenginn að láni frá Þykkvabæjarklaustri. Þegar bændur áttuðu sig á hvernig skilið hafði verið við reyndu þeir að komast í kirkjuna en allt var læst og hraunið komið upp að henni. Þessi missir var Meðallendingum afar sár og presti lítið þakkað. Þar til nýverið vissi engin hvar Hólmaselskirkja hafði nákvæmlega staðið. Guðgeiri þótti það mjög miður, fór á kreik og las sér til og leitaði allra gagna sem mögulegt var að finna. Hafði loks upp á korti sem biskup hafði látið gera af Meðallandi og nærsveitum nokkru fyrir gos þar sem fram kom staðsetning allra bæja sveitarinnar, bæði þeirra sem fóru undir og eins hinna sem sluppu og standa enn. Næst fékk hann hjá Landmælingum ríkisins loftmynd af sveitinni og með hornamælingum og samburði við þekkta staði og óþekkta gat hann fundið hnit staðarins þar sem kirkjan liggur undir. Að þessu öllu loknu, sem tók langan tíma og fyrirhöfn, fékk hann okkur svila sína og fleira gott fólk með sér með gps-tæki í hendi og gengum yfir hraunið eftir gps-tækinu, staðurinn fundinn og kross reistur á staðnum. Þessi ferð gekk mjög brösuglega og nefndi Guðgeir ákveðinn draug sem líklega var að stríða okkur. 

Veru sæll, kæri vinur. 
Ástvaldur Eiríksson og 
Katla Margét Ólafsdóttir. 


.

Ég vaknaði upp við vondan draum í London fyrir 15 árum. Mig dreymdi að þú værir farinn. Þú, af öllum. Ég var svo langt í burtu og ég ég átti þér svo margt að þakka. Sem betur fer var þetta draumur. Þegar ég hringdi í þig var allt í lagi. Þegar ég kom heim naut ég þess að vera nálægt þér. Ég vissi hvað ég var heppinn að þekkja þig.

Ég sagði þér aldrei frá því hvað mig dreymdi. Það skipti ekki máli.

Þegar ég byrjaði að blogga, fyrir rúmum tveimur árum, vissum við að eitthvað var að. Vissum ekki hvað það var, en þér leið illa. Þegar ég kom heim um sumarið, vildi ég fara með þig austur í Meðalland svo þú gætir séð æskuslóðirnar einu sinni enn, en þú varst of veikur. Sem betur fer náðir þú þér aftur. Þú gast notið lífsins, þótt óverðursskýin neituðu að hverfa. Ég minntist aldrei á þig á þessari síðu. Ekki vegna þess að ég vildi það ekki, ég vildi öskra til alheimsins að þarna færi fallegasta manneskja sem ég hef nokkru sinni kynnst. Ég vildi enda hverja færslu á kveðju til þín. En ég gerði það ekki því ég vildi láta þitt stríð í friði. Leyfa þér að berjast án þess að draga athygli að því.

Ég sagði þér aldrei að allt sem ég hef gert síðan, var fyrir þig. Ég tileinkaði þér ekki stuttmyndina því þú varst enn meðal okkar. Þú ert það enn, sem betur fer. En ég vil að þú vitir að ég gerði hana fyrir þig. Þegar ég geri kvikmyndina verður hún tileinkuð þér því ég hefði aldrei fengið hugmyndina án þín. Ég væri ekki sá sem ég er án þess að hafa kynnst þér og lært af þér. 

Ég er óendanlega þakklátur fyrir að hafa fengið að sýna þér Mats Kilian og sjá þig halda á honum. Ég mun aldrei gleyma litla augnablikinu áður en þið fóruð frá Skotlandi og þú komst inn í herbergi þar sem hann lá sofandi. Ég mun aldrei getað þakkað þér almennilega fyrir það, en þess þarf ekki. 

Ég vildi að ég gæti verið hjá þér í nótt. 


Daginn eftir...

Ólafur Ragnar gekk of langt og viðurkenndi það, bretinn brúni lét eins og fífl og mun tapa næstu kosningum, Ísland er í skítnum og framtíðin er björt.

Það sem mér fannst athyglisverðast í þessu viðtali var bjartsýnin. Það getur vel verið að þetta hafi verið silkiorð stjórnmálamanns, en ég vil trúa því sem ÓRG sagði. Íslendingar eru sterk þjóð og munu komast í gegn um þá erfiðleika sem framundan eru. Við lifðum Móðuharðindin af. Auðvitað voru það gallharðir bændur og sjómenn sem kölluðu ekki allt ömmu sína, en við þurfum ekki að gera annað en fara inn á vef íslendingabókar til að sjá hvað við erum náskyld þeim. Ég þarf ekki annað en að hugsa til afa sem nú háir sitt stríð og hans foreldra sem voru ekkert frábrugðin þeim sem horðu upp á allar sínar skepnur drepast, rúri öld fyrir þeirra fæðingu. Við erum sama fólkið og beit á jaxlinn þá, sama fólkið og lifði af sjö aldir í frosnum moldarkofum, sama þjóðin og mótmælti í Köben í den. Rassarnir okkar hafa kannski mýkst í Range Rover sætum undanfarinna ára, en við erum hörð inni við beinið.

Annað sem ÓRG minntist á er að við megum ekki missa fólk úr landi. Það hlýtur þá líka að þýða að komi týndu sauðirnir heim, séum við betur sett. Þar kæmi auðvitað tungumálakunnátta og þekking á umheiminum inn í landið. Ég er að spá í hugmynd sem gæti laðað okkur, íslendinga erlendis, heim. Ég blogga um það seinna. 

Framtíðin er björt ef við tökum forfeður okkar til fyrirmyndar og stöndum saman.


mbl.is Ólafur Ragnar: Ótrúleg ósanngirni breskra stjórnvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loftur "ríki" Guttormsson klúðraði arfinum mínum

Ég er kominn af Ingólfi Arnarsyni. Gott að vita það þegar ég fer fram á góða jörð í Kvosinni. Einhversstaðar á milli okkar fann ég Loft "ríka" Guttormsson, sem var sýslumaður og riddari. Ég hugði mér þar gott til glóðarinnar, en samkvæmt Íslendingabókinni átti hann 80 stórgarða en dó í slæmu koti. Hann hefur því klúðrað arfinum mínum.
mbl.is Krafðist arfs frá Noregskonungi sem lést á 14.öld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er kona

Konan fór í viðskiptaferð til Tyrklands í gær og kemur aftur á fimmtudagskvöld. Við, strákarnir, erum einir heima. Amma er að vinna þessa daga, svo það er ekkert annað að gera. Þetta er svo sem ekkert í fyrsta skipti, því hún hefur þurft að fara til Ítalíu, Frakklands, Kína og fleiri landa síðan hann fæddist, fyrir tæpum 18 mánuðum. Hún fer svo til Búlgaríu í lok mánaðarins.

Kannski er mér treyst því það er engin önnur lausn í stöðunni. Kannski erum við bara minna gamaldags en sumir. Þetta gengur vel. Hann er ánægður, fær að éta, er settur í bælið og það er skipt á honum. Var settur í bað í gærkvöld. Allt eins og það á að vera. Ég neita því ekki að hún er betri í barnastússinu, en það er auðvitað bara eðlilegt, enda eru konur hannaðar með börn í huga, meðan við karlarnir eigum að fara út og ná í mammút í matinn.

En hvernig get ég verið að skrifa bloggfærslu ef ég er svona góður pabbi? Hvar er barnið? Hann situr hérna við hliðina á mér og hjálpar við að pikka. Séu ritvillur í textanum, eru þær hans!


mbl.is Konan láti karlinn læra af reynslunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kilian

Ég er hissa að það taki fólk ekki meira en 45 klst. að finna nöfn á barnið sitt. Við vorum lengur að því. Hér í Hollandi er það þannig að barnið þarf að vera komið með nafn strax við fæðingu. Mig minnir að ég hafi haft þrjá virka daga til að skrá hann hjá sýslumanni, og þá auðvitað undir fullu nafni.

Við sátum yfir barnanafnabókum síðustu þrjá mánuði meðgöngunnar. Nafnið mátti ekki vera sérhollenskt eða íslenskt. Það varð að virka alls staðar. Það var ekki svo auðvelt. Mörg hollensk nöfn er erfitt að bera fram og íslensk nöfn eru síst betri. Við fundum þó stráka- og stelpunöfn sem við vorum sátt við að lokum. Það var svo laugardaginn 26. janúar að ég fékk efasemdakast. Mamman var ekkert hress með mig. Þegar ég sagði að það væri bara seinna nafnið, andaði hún léttar. Ég fór á netið og leitaði eins og brjálaður maður. Ég fann nafnið, bar það undir hina óléttu og hún var himinlifandi. Mats Kilian fæddist svo 24 tímum síðar.


mbl.is Rétta nafnið skiptir máli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég passa í dag og á morgun...

Mats er að verða 14 mánaða. Hann hefur verið meira og minna veikur, með kvef og flensur, síðan í október. Hann fer á dagheimili tvo daga í viku, á fimmtudögum og föstudögum. það er hægt að bóka að á sunnudegi er hann kominn með hor í nös og á mánudegi er hann með hita. hann er rétt að ná sér um miðja vikuna þegar hann fer aftur á dagheimilið og nær sér í næstu pest. Læknarnir segja að veturinn í ár sé sérstaklega slæmur, en að hann sé kannski viðkvæmari en gengur og gerist. 1. apríl verða teknir úr honum nefkirtlarnir. Þetta er rútínuaðgerð, á hverjum morgni fara fimm börn í þessa aðgerð á Spaarne sjúkrahúsinu í Hoofddoorp, þar sem hann mun fara.

Við eru að koma heim á sunnudaginn, svo það var ákveði að Mats færi ekki á dagheimilið í þessari viku. Við nennum ekki að vera með flensubarn á ferðalagi. Ég tók mér frí í vinnunni til að passa hann þessa tvo daga. Það er vonandi að hann verði sprækur i næstu viku. 

 


mbl.is Flensufaraldur vekur ugg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérstakt

Það er ekki oft sem ég blogga um fjölskylduna en ég ákvað að gera það núna. Bara lítið. Miriam, mamma Mats er í París, svo við erum bara tveir heima. Það þýðir samt ekkert að detta í bjór og snakk. Hann er allt of ungur.

Ég lét vatn renna í baðið, notalega heitt. Á meðan það var að gerast hitaði ég mjólk. Þegar mjólkin var orðin heit, setti ég smá (hvað heita hvítu flögurnar sem maður setur í barnamjólk?) út í, setti túttuna á og hristi vel. Svo greip ég litla svínið og fór upp stigann og inn á baðherbergi. Ég klæddi litla dýrið úr og setti það í baðið. Mikið var buslað og ég henti 15 gúmídýrum út í vatnið. Kisan kom og stökk up á brúnina. Það var auðvitað skett smá vatni á hana, en hún lét sig hafa það.

Þegar Mats var orðinn hreinn, var hann þurrkaður með handklæði sem hafði verið hitað á ofninum. Hann var svo klæddur í náttföt og settur í rúmið. Loksins fékk hann að drekka mjólkina. Hann sofnaði um leið og pelinn var tæmdur.

Það er eitthvað sérstakt við að hugsa um eigið barn. Ég hef aldrei séð sjálfan mig sem "barnafólk". Geri það ekki enn, en þau geta bara verið svo mikil krútt. 

Þess má svo geta að kökumyndin var tekin í eins árs afmælinu, 27. janúar.


mbl.is Pabbar auka hamingjuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óttinn er ekki svo slæmur

Fyrir rúmu ári stóð ég uppi á þaki fjölbýlishúss og horfði niður. Það var ekkert öryggisnet, en ég ákvað samt að stökkva. Ég er ennþá í fallinu og veit ekki hvort ég muni lenda á fótunum. Það verður að koma í ljós.

Líf okkar er ekki svo langt. Klisja, en það er bara svoleiðis. Flest látum við eins og við höfum ótakmarkaðan tíma. Það kemur þó að því að lokastundin nálgast og þá getur verið erfitt að horfa til baka. Hvað gerði ég? Var líf mitt einhvers virði? Skil ég Villi í Blafjöllumeitthvað eftir mig? Skiptir það einhvern einhverju máli hvort ég hafi lifað eða ekki? Börnin manns eru yfirleitt fegin að við höfum verið til og þar með gert þeim mögulegt að vera til, en lífið gengur ekki bara út á að vera útungunarvélar.

Það er gott að geta skapað, hvort sem það er í frístundum eða ekki. Það er örugglega gaman að hafa skapað merkilega hluti og sjá börn manns komast á aldur og uppgötva hvað "sá gamli/gamla" gerði. Það hlýtur að vera frábær tilfinning að gramsa í gamla dótinu uppi á háalofti og uppgötva óútgefna bók eftir afa sinn, eða kannski bara vel skrifuð bréf eða greinar. Þetta gat hann þá, hugsar maður og veltir fyrir sér því sem maður vissi ekki um gamla manninn. Maður fer aftur í tímann og kynnist fólki sem er farið.

Þegar ég kláraði Svarta Sandinn um daginn, hugsaði ég með mér, ef ég dey á morgun mun Mats ekki þekkja mig. Hann mun ekki muna eftir pabba sínum. Allt sem hann hefur eru ljósmyndir og það sem aðrir hafa sagt honum. Kannski hann myndi kynnast mér betur ef hann fyndi eintak af myndinni uppi á hálofti eftir 20 ár. En ég er ekkert að spá í að hrökkva alveg strax.

Það er gaman að lesa um framtak Ólafar. Ég vona að sem flestir finni þetta eitthvað sem gerir líf þeirra pínulítið meira virði með því að stökkva fram að brúninni, hvort sem það er gert með öryggisneti eða ekki. 


mbl.is Markmiðið að stíga inn í óttann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband