Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Af lífi og dauða...

Ekki veit ég hvað varð til þess að ráðherrafrúin gafst upp. Hvers vegna fólk tekur eigið líf. Við höfum sennilega öll íhugað þetta á einhverjum tímapunkti, en hvað fær manneskju til að fara alla leið? Er þetta ekki eigingjarnasta ákvörðun sem nokkur manneskja getur tekið? Lífið kann að vera erfitt og þetta getur virkað sem einföld lausn, en hvað um þá sem eftir lifa? Hvað um börnin manns sem fara að velta því fyrir sér, hvað gerði ég eða hvað hefði ég átt að gera? Foreldrar eiga að vera til staðar fyrir börnin sín, en það er erfitt ef þeir eru farnir. Börnin eiga að lifa foreldra sína, því það hlýtur að vera versta tilfinning sem til er að jarða barnið sitt. Dauða fylgir sorg, en sé um sjálfsmorð að ræða, fyldir reiðin með. Og hún fer ekki.

Líf og dauði voru ofarlega í huga mínum þegar ég vaknaði.

Við erum alltaf að flýta okkur. Troða morgunmatnum ofan í krakkann, henda honum út í nóttina því skólinn er að byrja og við að verða of sein í vinnuna. Við gefum svo næstu klukkutímana vinnu okkar. Seljum þá reyndar, misdýru verði. Við eigum það til að selja tíma okkar of ódýrt, því hvað sem við gerum, kemur hann ekki aftur.

Fyrrverandi vinnufélagi minn, Vanuza Ramos Semedo, var falleg stelpa. Ljúf og það var ómögulegt að líka ekki við hana. Rétt tæplega þrítug. Hún fór í barneignarfrí og ég sá hana aldrei aftur. Við heyrðum að hún hefði eignast heilbrigt barn. Hún var svo stolt af dótturinni. Hún hafði átt strák en hana langaði svo í stelpu, og hér var hún komin! Við fylgdumst með á Facebook, sáum myndir af mæðgunum. Lífið gat ekki orðið betra.

Dag einn fékk hún blóðtappa. Eitthvað sem hafði myndast kring um fæðinguna og enginn vissi af. Heilinn fékk ekkert blóð og hún vaknaði aldrei aftur. Tæpri viku síðar var hún farin. Tekin frá nýfæddu dótturinni.

Vanuza var yndisleg og Þeir sem þekktu hana sakna hennar. Tala enn um hana. Við syrgjum hana og segjum stundum að lífið sé óréttlátt. Við minnum okkur á að hver dagur sé sérstakur, að við eigum að nýta hann eins og hann væri sá síðasti. Því það kemur að því að dagurinn í dag er sá síðasti og morgundagurinn kemur ekki. Njótum lífsins, verum góð hvert við annað og gerum það sem við viljum gera. Ekki sóa lífinu í meðalmennsku, pirring og hluti sem skipta ekki máli.

Til hamingju með afmælið og hvíl í friði, mín kæra... 


mbl.is Ráðherrafrú tók eigið líf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýst eftir þjóð

Við viljum nýja ríkisstjórn. Við viljum þjóðstjórn, utanþingsstjórn, hægristjórn. Við viljum aðra stjórn. Hvað sem er, bara ekki vinstri velferðarstjórnina.

Eða hvað? Yrði önnur stjórn betri, réttlátari, meira í takt við þjóðina? Erfitt að segja, nema maður viti hvað þjóðin er að hugsa og ég efast um að hún viti það sjálf. Við viljum ekki borga Icesave. Skiljanlegt. Við viljum lífsgæðin sem við vorum vön fyrir hrun. Við viljum loka augunum og þegar við opnum þau aftur eru öll okkar vandamál horfin. Við viljum fara til baka, pota í "load saved game" og halda áfram frá þeim punkti áður en við gerðum mistökin. Leikurinn virðist vera tapaður og ef við bara förum aftur í tímann, kannski til 2006, getum við sleppt Icesave, bjargað bönkunum og lifað í vellystingum.

En lífið er ekki tölvuleikur. Við getum ekki ýtt á "save" takkann áður en við tökum afdrifaríkar ákvarðanir. Kannski eins gott, því það verður voðalega leiðinlegt til lengdar ef maður er alltaf að svindla á leiknum. Maður er nefninlega að svindla á sjálfum sér með því að læra ekki neitt, taka alltaf auðveldustu leiðina.

Hvað er annars vandamálið á Íslandi anno 2010? Er það Icesave? Er það yfirgangur fyrrverandi vinaþjóða okkar? Er það verðtryggingin, skattahækkanir, Steingrímur eða Jóhanna? Eða er vandamálið dýpra og nær okkur sjálfum? Erum við vandamálið?

Einhverntíma bloggaði ég um breytinguna á þjóðinni á fyrstu árum aldarinnar. Ég flutti til Hollands 1997, en fann fljótlega fyrir heimþrá. Hún entist þó ekki lengi. Þetta byrjaði allt þegar nýbyggingar spruttu upp út um allt. Þetta voru ekki hús, þetta voru hallir. Ég hafði oft sagt útlendingum frá því, fullur stolti, að við ættum synfóníu, óperu, fullt að kvikyndahúsum, leikhúsum og guð má vita hvað. En þegar verslanamiðstöð #300 spratt upp og hún var stærri en flest það sem sést í milljónaborgum erlendis, fór ég að hætta að fatta. Já, við vorum æði, gátum haldið úti menningu og verslun sem umheimurinn gat varla dreymt um, en þetta var að fara út í öfgar. Þetta gat aldrei staðið undir sér. Svo var það virkjanaáráttan. Allt skyldi virkja. Hvað var í gangi?

Þjóðin var að missa vitið. Ég sá þjóðfélagið með gestsauganu. Skildi tungumálið og þekkti þjóðarnadann en var ekki nógu oft á landinu til að samdaunast. Í hverri heimsókn sá ég breytingu. Ég hef yfirleitt komið heim tvisvar á ári. Ég man ekki hvenær hlutirnir fóru að breytast, en ég held ég hafi verið farinn að horfa stórum augum á framkvæmdirnar á árunum 2001-2003. Það var um svipað leyti sem þjóðin breyttist.

Alls snérist um peninga, allt kostaði helling, það þótti lítið mál að borga svimandi upphæðir fyrir einföldustu hluti. Það var eins og það væri flott að borga of mikið. Hér í Hollandi pössuðum við okkur á að fara (tiltölulega) vel með peningana. 10-20 evrur fyrir gallabuxur, sem var 800-1500 kr fyrir hrun þótti mikið. Á íslandi var fólk að borga tífalt verð. Án þess að blikka. Þótti sjálfsagður hlutur.

Fjárútlátin voru samt ekki það versta. Eftir því sem peningaflæðið jókst, Range Roverunum fljölgaði, fækkaði brosunum. Það var kominn einhver drambssvipur á þjóðina, stundum jafnvel heift. Ef einhver gekk á mann í Kringlunni, strunsaði sá hinn sami áfram, pirraður yfir því að ég hafi verið að flækjast fyrir. Enda skiljanlegt, sá pirraði var eflaust á leiðinni á mikilvægan fund og ég var fyrir. Í flestum borgum Evrópu hefði fólk stoppað og beðið hvort annað afsökunar. Skiptir ekki máli hver gekk á hvern, þetta er bara sjálfsögð kurteysi. En hún hafði verðið gerð útlæg á Íslandi. Sama við kassana í verslunum. Fólk var dónalegt við starfsfólk, var pirrað, að flýta sér og var móðgandi. Ég vorkenndi fullt af kassadömum á þessum tíma.

Ég ólst upp við sögur að fátæku fólki í burstabæjum sem buðu alla velkomna og deildu því litla sem það átti. Ef þreyttan og kaldan ferðalang bar að garði, var honum boðið inn. Þótt aðeins einn kjötbiti væri til á bænum, var ferðalangnum umsvifalaust boðið að borða. Það hefur líka sýnt sig að því meira sem fólk á, því minna gefur það. Mér varð oft hugsað til gamla Íslands, þar sem fólk bjó við raka og kulda, átti varla í sig og á, en virtist vera hamingjusamara. Það var hamingjusamara, því það átti hvort annað. Því maður er manns gaman. Range Roverarnir, Ipottarnir og utanlandsferðirnar voru allt í lagi, en þetta "drasl" kom ekki í staðinn fyrir mannlega þáttinn, samskipti við annað fólk.

Íslenska þjóðin er sterk. Við erum gestrisnir harðjaxlar sem getum hvað sem er. Inni við beinið. Við erum bara orðin svo feit að það er djúpt á alvöru íslendinginum í okkur. Nú er að hefjast nýtt ár. Ekkert merkilegt, svo sem. Bara einhver tala á almanaki. En hvernig væri að nota það sem nýtt upphaf. Reyna að finna íslendinginn í okkur? Ekki þjösnarlegu frekjudós síðustu ára, heldur það sem býr í okkur öllum. Brosandi harðjaxla liðinna alda. Ef við stöndum saman, getum við hvað sem er.

Gleðilegt ár. Megi 2011 vera upphafið á einhverju betra. 


mbl.is Vill nýja ríkisstjórn um tiltekin verkefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðfaðir Búsáldabyltingarinnar kveður (konuna)

Dennis Hopper er einn af uppáhaldsleikurum mínum. Hann er kúl og fyndinn. Hann fann líka eiginlega upp slagorð búsáhaldabyltingarinnar, helvítis fokking fokk. Man eftir því þegar hann lét ein flottustu orð kvikmyndasögunnar út úr sér í myndinni Blue Velvet eftir David Lynch. Hann var eitthvað að pirrast og öskraði "fuck that fucking fuck!" Við sem horfðum sprungum auðvitað á staðnum. Ég gat því ekki annað en hugsað um hann meðan fólk var að æpa niðrí bæ í von um að eitthvað myndi breytast á Íslandi.

En af hverju að skilja eftir 14 ár, á dánarbeðinu? Hvað hefur kélla verið að gera sem fer svona illa í deyjandi manninn? Maður veit það svo sem ekki. Utanaðkomandi vita svo sem aldrei hvað er að gerast innan veggja heimilisins. Hjónabönd fara í hundana, jafnvel eftir 14 ár. Ojá, þau gera það.

En það sem gerir alveg út af við mig er að hann vill sameiginlegt forræði. Húmorinn í lagi þrátt fyrir að maðurinn með ljáinn sé farinn að breima í garðinum. 

Það er því ekki hægt að segja neitt annað en helvítis fokking fokk um ástand hans núna. Respect, man!


mbl.is Óskaði eftir skilnaði á dánarbeðnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ha?

Ja hérna...

GLEÐILEG JÓL

Sjáumst á bókinni. 


mbl.is Facebook-skilnuðum fjölgar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Græni Risinn

Hef ekki bloggað í óratíma, enda hefur verið mikið að gera og allt það. Fórum til Bretlands, Somerset, Minehead. Var yndislegt. Sól og vesen. Hér er mynd af litla barninu, tekin á Hindon farm, rétt utan við þyrpinguna Minehead.

Græni Risinn

Hefði orðið áttræður í dag

Afi minn, Guðgeir Sumarliðason, hefði orðið áttræður í dag. Ég man eftir glottinu í augunum þegar hann sagðist vera með skemmtilega hugmynd um það hvernig hann vildi halda upp á það. Þetta var í ágúst í fyrra, um það bil sem myndin til hliðar var tekin. Hann greindist með krabbamein vorið 2006. Átti ekki að lifa það ár, en afi var alltaf sterkur og lifði ekki bara 2006, heldur 2007 líka. Það dró af honum, en á tímabili virtist ekkert ætla að koma í veg fyrir að hann næði að halda upp á afmælið í dag. Það varð þó ekki. Hann lést í október.

20080809Afi

Ein síðasta minningin sem ég á með honum er ávarp forsætisráðherra. Við stóðum í eldhúsinu, ég, hann og amma. Viku seinna fór ég aftur til Hollands og viku eftir það var hann farinn. Okkar allra síðasta stund saman var erfið. Við vissum að hann ætti ekki langt eftir, en hann hafði alltaf kvatt með brosi, við sjáumst næst. Ekki í þetta síðasta skipti. Hann var hálf sofandi í stólnum sínum, tók í höndina á mér og vildi ekki sleppa. Mér fannst við standa þarna í langan tíma. Við vissum báðir að þetta var okkar síðasta stund saman. Það lá einhvern vegin í loftinu. 10 dögum seinna var ég kominn heim aftur til að bera hann til grafar.

Margir íslendingar hafa flutt af landi brott eftir hrunið. Enn fleiri eru sennilega að spá í það. Ég flutti í burtu fyrir mörgum árum. Fórnaði mörgum árum sem við hefðum getað verið saman, gert upp fortíðina og kynnst hvorum öðrum sem fullorðnir menn. Það er svo auðvelt að fara, svo erfitt að vera farinn. Maður er alltaf á leiðinni heim, en áður en maður veit af eru 15 ár liðin og fólkið manns farið. Á endanum er kannski ekkert eftir sem dregur mann heim til Íslands. Kannski hafa börnin manns ekkert með þetta land að gera og koma aldrei heim.

Til hamingju afi, hvar sem þú ert. Ég hugsa til þín og mun alltaf gera það. 


Enda er ég vinafár...

Aldrei átti ég marga vini og aldrei fékk ég laun af einhverju viti, nema kannski þegar ég var að klepra hjá IBM heildsölunni um árið. Átti reyndar ekki heldur marga vini þá. Hefði kannski getað keypt nokkra, en nú er peningurinn búinn. Átti heldur ekki marga vini í skóla og það sést á launaseðlunum sem væru meira virði sem brennsluefni í arninn, ef þeir væru ekki PDF skrár.

En hvað um það. Ég átti aldrei marga vini og hef ekki eignast þá enn. Hafði það þó af að hjálpa til við að kvikmynda lagið að neðan, svona ef vera skyldi að einhver hafi áhuga...

 


mbl.is Algengast að fólk eigi um 150 vini
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mats tveggja ára!!!

Mats Kilian er tveggja ára í dag. Hann heldur að hann sé orðinn stór, því hann neitar að sofa. Gerði það líka í nótt. Vona að hann sofi vel í nótt, eftir að fá köku í kvöld. Svo verður haldin veisla á laugardag, svo ef einhver er í námunda við Halfweg í Hollandi er bara um að gera að mæta.

Mats

 

MatsTwee

 


2008

Þegar litið verður til baka á árið 2008... æi nei, á ekki bara að sleppa því? Þetta var hlaupár. Við lok 2007 tók við 2009. 2008 var aldrei til. Þetta gerðist aldrei.

Ísland vann sigur með því að tryggja sér gull í Pekingandabæ. Það vann svo hrikalegan ósigur þegar það ákvað að herma eftir skíðalýsingu Ómars frá því um árið. Hann rennir sér með þvílíkum þokka, svo hratt og örugglega. Það er unun að horfa á. Þarna fór hann á hausinn!

Vinnulega séð var árið mitt handónýtt. Næstum því. Vinn enn á flugvellinum. Það er gaman en launin eru svo slöpp að ég þarf að setja launaseðilinn í frysti til að geta lesið hann. Svo þarf ég að taka erlend lán til að geta keypt mjólk handa barninu. Ég vann í smá kvikmyndavinnu í sumar við að kvikmynda hesta hlaupandi í hringi og hoppand yfir hindranir. Ég er ennþá að reyna að fá borgað fyrir það. Stuttmyndinni var boðið að taka þátt í hátíð heima en var ekki sýnd, eins og ég komst að á síðasta degi eftir að hafa gert mér ferð heim til að vera viðstaddur. Hitti þó Papriku Steen og ákvað að ég vil vinna með henni í framtíðinni. Hitti líka Dag Kára og hann þekkti mig af einhverju námskeiði sem við vorum á saman fyrir um 20 árum. Krípí hvað sumt fólk er mannglöggt. Tók upp frábæra hljómleika með Mugison í Hollandi, bara svona "youTube rugl" eins og hann kallaði það. Tók upp tvenna Uriah Heep hljómleika og það gekk vel. Verður flott afurð ef DVDinn verður gefinn út. Svo kláraði ég fyrsta kvikmyndahandritið. Nú er bara að finna fúsan framleiðanda. Svo er nýtt handrit að rembast við að ná athygli minni. Ég kalla það The Filmmaker, svona til að byrja með. Það er sem sagt ofboðslega mikið að gera en ekkert að gerast.

Mitt persónulega líf var óspennandi, nema í október þegar afi dó, en það var spenna sem ég, hann og allir sem þekktu hann hefðu getað verið án. Fegurri manneskju var ekki hægt að finna og er missirinn því erfiðari að eiga við en ella.

2008 var vonlaust. Gleymum því bara að það hafi bara yfirleitt verið til og vonum að 2009 verð betra. Vonum að spillingarliðinu verði hent út og þessir þrír íslendingar sem eftir verða lifi í sátt við hvorn annan og landið. Ég vona svo að Híp diskurinn verði borinn fyrir augu almennings sem lepur hann upp. Svo vona ég að Undir Svörtum Sandi verði tekin upp og verði komin vel inn í eftirvinnslu í árslok. Vona að við þurfum ekki að vera í þessu bévítans basli áfram. Ég tók ekki þátt í góðærinu og hef því ekki áhuga á hallærinu heldur.

Ég óska þér, lesandi góður, gæfuríks árs. Gerum eitthvað gott úr þessu.


Gleðileg Jól! - Gjöf til bloggvina

Kæru íslendingar.

Ég vil nota þetta tækifæri til að óska landsmönnum öllum Gleðilegra Jóla. Þetta er hátíð ljóss og friðar, vináttu og gjafmildi. Verið góð við hvert annað og knúsið þá sem ykkur þykir vænt um.

Þar sem ég er erlendis get ég engan hitt eða knúsað. Þó vil ég bjóða bloggvinum mínum jólagjöf. Sendið mér skilaboð og ég sendi ykkur upplýsingar um hvernig þið getið náð í stuttmyndina Svartan Sand. Sum ykkar eiga hana á DVD, en fyrir ykkur hin, látið bara vita og ég læt ykkur vita hvar þið getið dánlódað henni. Þessi er að vísu í hærri upplausn en sjónvarp, svo kannski vilja handhafar DVDsins líka ná í.

Þetta er Quicktime skrá, og þarf þann spilara, eða iTunes eða iPod eða iPhone. Skráin stendur til boða fram á annan dag jóla. Munið að þetta er stuttmyndin sem kvikmyndin Undir Svörtum Sandi verður byggð á, en hún fer í framleiðslu á árinu ef orkan er með ons.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband