Færsluflokkur: Vefurinn

Innskráning á blogg

Eftirfarandi er póstur sem ég sendi á aðstandendur blog.is

Kæri viðtakandi,

Ég hef tekið eftir breytingu á innskráningu á bloggi. Stundum opna ég nokkrar bloggsíður í flipum (tabs), les og geri athugasemdir. Hafi ég verið innskráður á þeirri fyrstu, helst það á seinni síðum. Nú þarf ég að skrá mig inn á hverja síðu sérstaklega. Einnig er það breytt að endurhlaði ég síðuna nokkrum mínútum seinna, þarf ég að skrá mig inn aftur til að gera athugasemd.

Eru þetta breytingar til framtíðar? Þær gera allt ferlið þyngra og skemma mikið fyrir. Ég er sannfærður um að þetta muni hafa neikvæð áhrif á bloggið og athugasemdum, og þar með umræðum, muni fækka töluvert.

Með von um skjót svör,

Takk fyrir skemmtilegt umhverfi,

Villi Ásgeirsson

vga.blog.is

PS. Til að skrifa þessa færslu, skráði ég mig inn hér að ofan. Ég opnaði svo stjórnborðið í nýjum flipa. Þegar þangað var komið, þurfti ég að skrá mig inn aftur til að geta skrifa nýja færslu. 

PPS. Eftir að hafa skrifað þessa færslu, þurfti ég að skrá mig inn aftur til að vista. 

PPPS. Þegar færslan var vistuð, potaði ég í Refresh á bloggsíðunni til að sjá hvernig þetta liti út. Þá var ég þegar útskráður. Og nú fæ ég þetta: Vefköku notanda vantar. Vinsamlega innskráðu þig aftur. Merkilegt, þar sem ég er innskráður, samkvæmt efsta hluta stjórnborðssíðunnar. Ég þurfti því að fara alveg út og inn aftur. Og skrá mig inn aftur. Veit ekki hversu oft.


Hrunið - kvikmynd um fall Íslands : og burt með spillingarliðið!

Ég er að ljúka við gerð handrits sem ég vonast til að geta kvikmyndað í sumar. Mundin Undir Svörtum Sandi verður lauslega byggða á næstum því samnefndri stuttmynd. Þar sem þessi skrif eru að klárast, væri gaman að finna sér nýtt viðfangsefni.

Mér var að detta í hug að gera myndina Hrunið. Kannski að titillinn breytist eftir því sem sagan þróast. Myndin ætti að fjalla um íslenskan raunveruleika í kjölfar bankahrunsins. Hér er hugmynd.

Pabbi rekur lítið fyrirtæki og mamma er kennari. Skuldir fyrirtækisins verða óyfirstíganlegar og það fer á hausinn. Húsið og bílarnir missa verðgildi sitt meðan lánin rjúka upp. Mamma reynir að halda heimilinu gangandi, en það gengur illa á kennaralaununum. Pabbi reynir að sinna heimilisverkum þegar hann er ekki að leita sér að vinnu, en finnur út að hann er alveg hand ónýt húsmóðir. Þetta ástand hefur auðvitað hrikalegar afleiðingar. Táningarnir tveir skilja ekki hvers vegna þau geta ekki haldið áfram að eyða peningum og þar kemur enn ein togstreytan.

Pabbi var víst ekki alveg þar sem hann var séður. Fljótlega fer síminn að hringja og miður skemmtilegir menn fara að láta sjá sig. Þegar jeppinn fuðrar upp í innkeyrslunni, fer allt endanlega í hundana. Kannski að unglingarnir finni á sér nýja hlið og berjist við vondu kallana.

Ég get svo sem hóstað þessu upp, en það væri alveg ofboðslega skemmtilegt ef þetta yrði samvinnuverkefni. Ef fólk gerði athugasemdir, kæmi með persónur og atburði. Það væri gaman að sjá hvort hægt væri að þróa handritið hér á blogginu. Það sem ég skrifa hér að ofan er bara hugmynd. Handritið gæti þróast í allt aðra átt.

Látið endilega vita hvað ykkur finnst og sjáum hvort við getum gert kvikmynd allra landsmanna! 


Ég get ekki tjáð mig um málið á þessari stundu

Blaðamaður: Er lán frá IMF í höfn?

Formaður Aðfaraflokksins: Við erum að skoða ýmislegt og margt kemur til greina.

B: Hvað annað er hægt að gera í stöðunni?

FA: Gát er best með forsjá. Við getum ekki rasað að neinu. Það ber að skoða okkar möguleika á erlendum vettvangi og útiloka ekki neitt.

B: Væri heppilegt ef seðlabankastjóri segði af sér?

FA: Það held ég ekki. Við eigum ekki að vera að ráðast á einstaka menn í þjóðfélaginu. Við verðum að standa saman og leysa úr málunum. Það hjálpar engum ef við erum í einhverjum benda-á-mann leik. Nú verðum við að standa saman.

B: Má ekki gera ráð fyrir að við verðum tekin alvarlegar erlendis ef seðlabankastjóri og ríkisstjórnin færi frá?

FA: Það held ég ekki. Við erum með traust fólk og ættum að gefa þeim vinnufrið.

B:Finnst þér ekki að stjórnmálamenn megi vera hreinskilnari við fólkið í landinu? Er ekki allt of mikill feluleikur í gangi?

FA: Það held ég ekki. Fólk fær að heyra hvað við erum að gera þegar þar að kemur. Það hjálpar engum að vera að gaspra út um allt. Við verðum að standa saman og vera yfirveguð. 

B: Sagt er að IMF sé ljót stofnun, að ráðskast sé með heilu löndin og að auðurinn komi í hendur örfárra auðmanna. Er þetta besti kosturinn fyrir Ísland?

FA: Það er auðvitað bara bull að IMF séu einhver glæpasamtök. Ég vísa svoleiðis samsæriskenningum á bug. Enda er ekkert annað í stöðunni.

B: Hvað með Ghana?

FA: Það varð að nútímavæða það land, en annars get ég ekkert verið að tala um einstaka lönd. Við erum öðruvísi, enda stofnfélagar IMF.

B: Stórnmálamenn áttu mikinn þátt í að skapa þá stöðu sem við erum í.

FA: Nei nei, við gerðum það ekki...

B: Þið settuð reglurnar og sváfuð svo á verðinum. Stunguð skírslum undir stól.

FA: Við í Aðfaraflokknum gerðum það ekki. Það voru Sjálfstæðismenn. Við höfum alltaf barist gegn...

B: Þið áttuð þátt í einkavæðingunni og sögðuð ekkert meðan spilaborgin var reist.

FA: Sko, við höfum oft bent á að kapp sé best með nauðsyn og að of hratt væri farið.

B: Hvenær?

FA: Ha?

B: Hvenær bentuð þið á að of hratt væri farið?

FA: Oft.

B: Hvenær?

FA: Á fundum.

B: Hvaða fundum?

FA: Er þetta ekki að verða gott?

Kæru lesendur. Þetta viðtal var aldrei tekið, en það hljómar eins og þau öll. Hvenær ætlum við að vakna og gera eitthvað? Ríkisstjórn xD og xB einkavæddi bankana. Kaupendur voru ekki hæstbjóðendur, heldur vinir og kunningjar. Bankarnir okkar voru gefnir. Svo var farið í víking. Íslendingar voru orðnir forríkir, en auðurinn var þó ekki til. Þetta var allt tekið á lánum. Það má kannski kenna þjóðinni um, en voru allar upplýsingar réttar? Var ástandinu lýst rétt? Fengu allir góðar ráðleggingar?

Ríkisstjórn xD og xS hefði átt að sjá hrunið fyrir en gerði ekkert fyrr en það var orðið of seint. Þegar farið var af stað, var farið með þvílíku offorsi að allt kerfið hrundi eins og spilaborgin sem það var. Ríkisvæðing Glitnis voru mistök sem eru að kosta þjóðina sex milljarða dala. Ég reyni ekki einu sinni að nefna krónutölu, því hún verður gjörbreytt á morgun. Við sem engan þátt tóku í sukkinu og byggingu spilaborgarinnar megum borga lán frá IMF sem er þekkt fyrir allt annað en vettlingatök. Við og okkar afkomendur verðum að borga fyrir sukkið og mistökin. 20.000 dollara á mann, meira ef við tökum vexti inn í dæmið. það eru allir að taka lán upp á þrjár milljónir. Smábörn og gamalmenni líka. Og ófædd börn.

Við vitum ekki einu sinni hvort 3.000.000 á mann er nóg því það er ekki allt komið í ljós. Við vitum ekki hvort 20.000 dollarar séu þrjár milljónir eða fimm, því enginn veit hvað krónan er lítils virði. Fólk, sveitarfélög og félagasamtök í útlöndum eru að undirbúa mál á hendur íslendingum. Við megum borga brúsann, meðan þeir sem settu reglurnar og gleymdu að veita aðhald sitja sem fastast. Við megum borga meðan þeir sem létu milljarða lán falla þá þjóðina láta sig hverfa í einkaþotum, svo þeir geti slappað af á snekkju í sólarlöndum, langt frá pirrandi væli fólksins.

Við verðum að gera eitthvað. Standa saman, breyta Ísland í þjóðfélagið sem við viljum búa í. Ekki eitthvert gjörspillt bananalýðveldi. Ef við notum ekki tækifærið núna, breytist ekkert.

Endilega kíkið á Nýja Ísland og takið þátt í að breyta samfélaginu til hins betra. Komum umræðunni af stað! Ef við vinnum saman, getum við skipt máli. Ef ekki, fer allt aftur í sama horfið. Bara með hærri lánum. 


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýja Ísland

Eins og dómsmálaráðherra segir, verðum við að byrja upp á nýtt. Við verðum að berjast fyrir frelsi okkar og sjálfstæði, bæði pólitísku og efnahagslegu. Það er fyrir öllu að við föllum ekki í sömu gryfjuna, að við segjum skilið við flokkapólitík í rikisfyrirtækjum, spillingu í kerfinu og óhemda veraldarhyggju. Auðvitað er gott að njóta lífsins, en kapp er best með forsjá eins og við höfum verið minnt all harkalega á.

Til að Ísland verði sem best, til að þjóðfélagið verði það sem við viljum hafa það, verðum við öll að standa saman. Við verðum öll að leggja okkar af hendi. Þá á ég ekki bara við vinnu, heldur verðum við öll að koma með hugmyndir. Hvenig þjóðfélag viljum við byggja?

Ég setti upp síðuna Nýja Ísland svo við getum öll lagt okkar að mörkum. Þar getum við öll sagt hvað við viljum, komið með hugmyndir að nýju samfélagi og gert athugasemdir við það sem okkur þykir miður fara. Það er um að gera að sem flestir skrái sig og taki þátt. Hver veit, ef við erum nógu mörg, hlusta ráðamenn kannski á okkur. Þeir gætu jafnvel tekið þátt í umræðunni ef vel gengur.

Vonandi sé ég sem flesta á NyjaIsland.is 


mbl.is Ný sjálfstæðisbarátta óhjákvæmileg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt í góðu...

Ég er jafn pirraður út í breta og hver annar, en skiptir þetta einhverju máli? Það er ólíklegt að RAF geri loftárásir á Ísland, þótt bretinn brúni sé skapstyggur. Það er líka ólíklegt að RAF geri ekki sitt besta, verði landinu ógnað. Þar fyrir utan er hættan á ógn lítil. Rússar eru bestu vinir íslendinga og kanadamenn hafa verið vinveittir hingað til. Noregur hefur sennilega ekki áhuga á að yfirtaka Ísland því þá þyrftu þeir að yfirtaka skuldirnar með. Þetta er því dautt mál og það myndi ekki hjálpa neinum að gera pólitískt óveður úr því.

Annað mál á dagskrá. Mér finnst að íslendingar verði að hafa einn stað þar sem hugmyndir og athugasemdir við stjórnun þjóðarinnar koma fram. Við getum öll bloggað, en það fá ekki allir 1000 gesti á dag. Komi einhver með frábæra hugmynd en fimm manns lesa hana, dettur hún dauð niður. Ég hef því sett upp síðuna www.NyjaIsland.is þar sem allir geta skráð sig og tjáð sig. Ef við byggjum upp sterkt og lifandi samfélag, getum við haft áhrif. Hver veit, kannski fara þingmenn að venja komur sínar til okkar? Það er möguleiki, en aðeins ef við búum til virkt og málefnanlegt samfélag.

Sjáumst á www.NyjaIsland.is 


mbl.is Bretar sjá um varnirnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég verslaði á Íslandi í dag

Það er ljótt ef millifærslur eru ekki að virka milli landa. Hver stoppar þær og hvers vegna? Nú er ég erlendis og veit ekkert um ástandið nema að sem ég les á netinu. Er farið að bera á vöruskorti heima?

Annars var ég að versla í dag. Ég fór inn á síðu Isnic og tók NyjaIsland.is á leigu. Þetta kostaði slatta, en með ykkar hjálp verður þetta þess virði. Þess má geta að það virtist ekki vera vandamál að borga með korti.

En um lénið. Ég minntist á það um daginn að mig langaði að setja upp síðu þar sem fólk gæti komið saman og rætt málin. Komið með hugmyndir sem gætu hjálpað okkur að komast út úr þessu ástandi. Síðan er tilbúin. Hún er einföld en spjallborðið verðuð aðal málið. Það eina sem er ekki að virka er nafnaþjónadæmið. Hafi einhver vit á þessu, má hinn sami hjálpa. Ég setti upp DNS þjón hjá xName.org því hitt .is lénið mitt er þar. Ég er að nota nákvæmlega sömu stillingar, en samt segir Isnic síðan þetta:

Niðurstaða prófa á "NS1.XNAME.ORG": Ekki tókst að fletta upp nafnaþjónum fyrir lénið NYJAISLAND.IS
Niðurstaða prófa á "NS0.XNAME.ORG": Ekki tókst að fletta upp nafnaþjónum fyrir lénið NYJAISLAND.IS 

 Ég er ekki að fatta. Nenni einhver sem vit hefur á þessu að vera í emil sambandi á morgun, mun ég verða ofurhappí og síðan vonandi verða nothæf.


mbl.is Greiðslur stöðvaðar á leið til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftur til 1984 og til baka

Ísland var alltaf land óðaverðbólgu, flokkaspillingar, vinagreiða og einangrunar. Í kjölfar hernáms breta í maí 1940 breyttist flest, en þó ekki allt. Einangrunin hvarf með hersetunni, inngöngu í Nato og Sameinuðu Þjóðirnar og svo endanlega 1994 með undirritun samningsins um EES. Óðaverðbólgan hvarf eftir þjóðarsáttina og var komin niður í eðlilega tölu upp út 1990. Spillingin og vinagreiðarnir héldu þó velli.

Í kjölfar hrunsins í síðustu viku er Ísland komið í sömu spor og við vorum í 1984. Við erum einangruð með ónýtan gjaldmiðil, óðaverðbólga og fjöldagjaldþrot framundan. Allt er breytt. Ísland verður aldrei eins og það var. Auðvitað munum við vinna okkur út úr þessu veseni, en hvað mun það taka langan tíma? Erum við að tala um ár eða áratugi?

Traust okkar í milli hefur aldrei verið mikilvægara en nú. Við höfum ekki efni á að vera í innbyrðis deilum. Við verðum að standa saman og vinna okkur upp úr þessu. Við verðum að veita stjórnmálamönnum og öðrum sem fara með okkar vald aðhald. Flokksskírteini eiga ekki að skipta máli lengur. Vinagreiðar verða að heyra sögunni til. Íslenskt þjóðfélag verður að vera eins krystaltært og gegnsætt og mögulegt er.

Fyrir einhverju síðan skráði ég lénið FreeIceland.com. Er ekki kominn tími til að nota það? Ég ætla að setja upp spjallvef þar sem fólk getur tjáð sig um hvað sem það vill, komið með hugmyndir að betri framtíð og sagt sína sögu. Bloggið er fínt, en almennur spjallvefur er annars eðlist. Það hittist fólk og ræðir málin. Þar verður hægt að setja þrýsting á ráðamenn og aðra. Sjái fólk þörf fyrir aðgerðir, verður hægt að skipuleggja þær þar sem allir sjá til. Umfram allt verður hægt að sameina krafta sem flestra. Í staðinn fyrir að tuða hvert í sínu horni, getur fólk talað saman og sameinast gegn því sem miður fer. Stjórnmála- og viðskiptamenn eru bara menn (hér er auðvitað átt við bæði kynin) og þeir þurfa líka hönd til að halda í. Það verður hægt að gagnrýna það sem miður fer, en hrósa því sem vel er gert. Vonandi verður umræðan þess eðlis að fólk í stjórnunarstöðum geti notað vefinn til að sjá hvað fólkinu í landinu finnst um hin ýmsu mál.

Ég mun setja síðuna upp sem fyrst. Ég vonast til að hafa hana tlbúna og á netinu fyrir helgi. Hafi fólk hugmyndir um það hvers konar spjallrásir eigi að byrja á, má setja það í athugasemdir hér að neðan. Ég vona að síðan dafni og muni skipta máli í umræðunni.


mbl.is Spáir 75% verðbólgu á næstunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Live in the Lowlands

Kíkið hér að neðan. Ég var að búa til opnunarmynd. Hún verður notuð í upphafi laga sem ég mun taka upp á hljómleikum og setja á youTube eða eitthvað svipað. Þetta mun byrja með 1-2 lögum með Rick Treffers á Hollensku. Annað kvöld mun ég taka upp hljómleika með tveimur lítið þekktum, en voða góðum, flytjendum. Þau eru Rik van den Bosch, hollendingur sem syngur delta blús betur en flestir. Svo er það K.C. McKanzie, sem býr í Berlín. Hún hljómar kannski helst svipað Suzanne Vega. Samt öðruvísi. Svo er það Mugison. Hann mun spila hérna í júlí og ég mun filma hann.

 



Hvað finnst fólki annars um þennan 20 sekúndna bút að ofan?

Blogg til tveggja árs... nenniði að halda upp á að fyrir mig?

Á morgun eru liðin tvö ár síðan ég byrjaði að blogga. Engin stórfrétt, svo sem, enda koma ekki margir hingað inn. Einstaka athugasemd slysast hérna inn. Stundum skrifa Sólarupprás 2ég eitthvað af viti, en yfirleitt ekki. Eitt hef ég þó aldrei gert, bloggað um fréttir með einni setningu sem á að vera fyndin eða endursagt fréttir. Ég er að spá í að prófa það á komandi dögum.

Þetta byrjaði allt 3. mæ 2006. Ég ákvað að leyfa fólki að fylgjast með gerð kvikmyndar. Sú hvarf þó og hefur enginn séð hana síðan. Flestar færslurnar eru því um eitthvað annað, eða alls ekki neitt, eins og þessi. Þess má geta að lang flestar færslurnar hafa verið skrifaðar á Apple PowerBook G4 með tólf tommu skjá, lyklaborði og DVD-skrifara (sem ég nota reyndar ekki við bloggskrif). Það sannar kannski að það eru ekki verkfærin sem skipta máli, heldur sá sem höndlar þau.

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort það tæki því að Powerbook G4taka saman færslurnar og búa til bók úr þeim. Ekki til að gefa út, heldur fyrir mig sjálfan svo ég geti lesið þær yfir og efast um snilligáfu mína. 

Það er tilheyrandi á tímum sem þessum að líta til baka, um farinn veg. Rifja upp liðnar stundir. Ég segi þó bara eins og Gunzo í prúðuleikurunum... I'm walking down memory lane without a darn thing on my mind. Segjum það gott. 

Það væri gaman ef fólk gerði athugasemd við þessa færslu og segði frá því hvort einhver skrif hafi gert eitthvað, skipt það einhverju máli. Hef ég bætt einhvers líf með skrifum mínum, móðgað eða sært, eða er bloggið mitt eins og Barry Maniloff lag, of leiðinlegt til að skipta máli en ekki nógu leiðinlegt til að skipta um stöð?


Engar íslenskar kvikmyndir á netinu?

Fyrir 2-3 árum fékk ég stórsnjalla hugmynd, að selja íslenskar kvikmyndir á netinu. Ég setti mig í samband við kvikmyndafyrirtæki sem hafa framleitt vinsælustu íslensku kvikmyndirnar á undanförnum árum og áratugum. Yfirleitt fékk ég ekki svar, en ef þau komu voru þau ekki mjög jákvæð. Þessi á höfundarréttinn, við erum ekki tilbúin í svona.

Oft er kastað til hendinni þegar Íslenskar kvikmyndir eru settar á DVD diska. Myndin er annað hvort í "full screen" þótt hún hafi ekki verið sýnd þannig í bíó. Ef hún er wide screen er það oft plat, því hún er í raun full screen með svörtum röndum að ofan og neðan. Upplausnin er því töluvert lægri en ef fólk hefði verið að vanda sig. Svo er oft sama og ekkert aukaefni. Þetta eru því diskar svipaðir útsöludiskunum erlendis, sem eru að seljast á 3-5 evrur og 5-fyrir-10 evrur.

Hugmyndin var að taka hverja mynd fyrir sig, setja hana á stafrænt form ef ekki var til góð útgáfa af henni og setja eitthvað aukaefni á diskinn. Það hefði getað verið eitthvað einfalt, eins og viðtöl, trailerar og fleira. Myndin yrði svo textuð á helstu evrópumálin. Diskarnir yrðu svo seldir gegn um netið til íslendinga og útlendinga, hverra þeirra sem hefðu áhuga á íslenskri kvikmyndagerð. 4-6 titlar yrðu gefnir út ár hvert. Einfaldari hugmynd var bara að selja diskana og vera ekki með neitt vesen.

Kannski var þetta bjánaleg hugmynd, en ég er ekki svo viss. Það er allavega ótrúlega lítið úrval af íslenskum diskum í búðum og á netinu. 


mbl.is Eldra fólk kaupir á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband