Færsluflokkur: Bloggar

Ef ég væri...

Fólk sem eitthvað veit um mig veit að ég hef stundum tuðað yfir að vera að rolast í útlandinu. Oft er fínt að vera fjarri ruglinu heima, en það er sennilega oftar sem ég pirrast yfir að vera ekki heima. Er alltaf að missa af einhverju. Nú er ég að upplifa þannig tilfinningu.

Ef ég væri á Íslandi, myndi ég örugglega taka þátt í þessu. Strengja áramótaheit á stundinni, kaupa mér skó og úlpu og skella mér í Ferðafélagið. Sjá hvað úthaldið yrði. Hvað myndi ég þola mörg fjöll? Hvaða áhrif hefði svona ár á líf manns? Hvernig myndir gæti ég tekið af landinu? Hvernig fólki myndi ég kynnast?

En ég er ennþá að rolast í útlandinu. Óska bara ferðafélagsfólki til hamingju með skemmtilegt verkefni.


mbl.is Ætla að ganga á 52 fjöll á árinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðilegt ár?

Ætla ekkert að kommenta á heimsfréttirnar frá árinu 2009. Það vita allir að Samfó gerði allt til að selja okkur ESB, að VG sveik öll loforð, að Framstæðisflokkarnir þvoðu af sér alla sekt vegna hrunsins og létu eins og það kæmi þeim ekki við, að enginn sem máli skiptir hefur verið dreginn til saka, að forsetinn sem setti það fordæmi að ekki þyrfti að skrifa undir öll lög virðist ætla að skella við skollaeyrum þegar þjóðin grátbiður um að hlustað sé. Við vitum líka að Landsbankinn er galtómur og Icesave verður skellt á þjóðina. Við vitum að Wouter Bos vill endilega breyta bankakerfi Evrópu svo að lönd lendi ekki í vanda, komi til kerfishruns. Það segir hann við hollendingana sína, meðan hann snýr upp á handlegg íslensku þjóðarinnar. Gordon Brown borgar innistæðueigendum sem greitt hafa í breska ríkskassann, en ekki öðrum. Íbúar Isle of Man fá ekkert þegar banki hrynur, því þeir heyra undir krúnuna, ekki þingið, og hafa því ekki borgað skatta í Bretlandi. Það virðist þó ekki stoppa hann í að krefja íslendinga um greiðslu, þótt bretar hafi yfirleitt ekki verið að borga skatta á íslandi.

2009 var skemmtilegt ár fyrir Ísland.

Það var líka stórfínt hér. Stærsta verkefni sem ég hafði unnið að var sett á hilluna. Ekki opinberlega. Það bara gerðist ekkert. Engin hljómleikamynd var gefin út. Mér leiddist meira í útlandinu en nokkru sinni. Klúðraði kannski soldið sjálfur og hef endað í einhverju svartholi í árslok. En það er bara eins og lífið er. Upp og niður. Hef þó það sem þarf til að gera 2010 frábært ár. Allavega þegar fer að líða á. Þekki fólk sem ég þekkti ekki eða þekkti lítið sem mun hjálpa mér að lyfta mér á hærra plan. Veit hvað ég vil og vil ekki. Það er allavega ágætis byrjun, ekki satt?

Stundum þarf að brjóta allt niður og byrja upp á nýtt.

Vér óskum landsmönnum öllum gæfu og hamingju á nýja árinu. Megi það verða betra en það sem á undan er gengið. 


mbl.is Völvan spáir spennandi tímum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskast...

Ung kona með IQ yfir 145, helst með háskólapróf. Ytri fegurð er æskileg, en sú innri nauðsynleg. Konan verður að vera skemmtileg, vel að sér í heimsmálum og öðru sem við á.

Í boði er miðaldra, glaðlyndur maður sem örlítið er farið að sjá á. Ekki mikið samt. Er enn með hár. IQ kring um 140. Er með próf í fjölmiðlun, hljóðupptökum og kvikmyndagerð. Ekki háskólapróf samt.  

Áhugasamar geta...


mbl.is Mælt með að konan sé yngri og klárari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afsakið Hlé...

...meðan ég geri hluti sem hafa ekkert með tölvur að gera og fer í vikufrí til Kanarí sem ég hef ekki neinn sérstakan áhuga á því það er svo margt annað sem ég þarf að gera.

Blóm eru vinsamlegast afþökkuð. 


Skyrta

Þarf að vinna í kvöld. Þurfti að þvo skyrturnar svo ég lykti ekki eins og þurfalingarnir sem nappa stubbum úr sandbökkunum utan við flugstöðina.

20090403Shirt


Blaður

Við fórum á borgarafund í morgun. Borgarstjórar Haarlemmermeer, þar sem Schiphol er staðsettur og Haarlemmerliede, þar sem við búum, vildu fræða fólk um flugslysið og ræða málin. Við entumst ekki lengi, því þeir blöðruðu um ekkert. Þeir fundu til með okkur sem hér búum, skildu áhyggjur okkar af flugumferðinni yfir hausunum á okkur. Þeir væru ekki bara sýslumenn, heldur eins konar feður fólksins sem yrðu að skilja okkur og hjálpa á erfiðum tímum. Bla bla bla.

Ég hafði búist við stuttum og hnitmiðuðum ræðum um það hvað gerðist og hvað á að gera. Mun þetta breyta einhverju. Í staðinn stóðu þeir þarna og blöðruðu eins og háfleygir prestar á sunnudagsmorgni. Hefði ég áhuga á innihaldslausu tilfinningavæli, færi ég í kirkju. Þetta var klúður, finnst mér, og við entumst ekki lengi.

Annars eru hollenskir fjölmiðlar að spekulera fram og til baka um orsakir slyssins. Upphaflega var sagt að flugmaðurinn hafi verið í þjálfun og hefði misst hraða með þessum afleiðingum. Turkish irlines hafa borið þetta til baka, segja hann hafa lokið þjálfun á Boeing 737-800 árið 2004. Líklegra er talið að vélin hafi lent í sogi eftir 757 vél sem lenti innan við tveimur mínútum fyrr.

Sjáum hvernig þetta endar. Kemur í ljós. 


mbl.is Fyrstu slysamyndirnar birtust á Twitter
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Níu

Samkvæmt hollenskum fjölmiðlum eru a.m.k. níu manns látnir. Fimmtíu manns eru slasaðir, þar af 20-30 mikið. Bæði farþegar og áhöfn eru meðal slasaðra, en engar fréttir hafa borist af hinum látnu. Slasaðir hafa verið færðir á sjúkrahús í Amsterdam, Haarlem og Hoofddoorp.

m1ezkqxa3u70

Við vorum að versla í matinn þegar þetta gerðist. Sírenuvælið heyrist enn allt í kring og þyrlur fljúga yfir, enda búum við innan við tvo kílómetra frá slysstað. Lokað var fyrir allt flug um Schiphol í einhvern tíma. Ég á að vera mættur í vinnu þar eftir einn og hálfan tíma, svo ég hringdi og spurði hvernig ástandið væri? Flugbrautin þar sem vélin kom niður er lokuð og verður það um óákveðinn tíma, eins og eðlilegt er. Aðrar brautir hafa verið opnaðar fyrir takmarkaðri umferð. Það má því búast við töfum, en engu flugi easyJet (sem ég vinn fyrir í dag) hefur verið aflýst enn sem komið er.

Öllum hraðbrautum kring um Schiphol var lokað og einhverjar eru enn lokaðar. Fólki sem ekkert erindi á á flugvöllinn er beðið um að vera ekki á ferð, því allir vegir eru tepptir. Ég þarf sennilega að fara tímanlega af stað ef ég á að komast í vinnuna. 

Það verður sennilega öðruvísi andrúmsloft á flugvellinum í dag og kvöld.


mbl.is Misvísandi fréttir um manntjón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stuttmyndir.com

Skemmtilegt að sjá þennan vef verða að veruleika. Ég var auðvitað með svipaða hugmynd fyrir einhverju síðan, nema að sá vefur myndi halda utan um íslenskar stuttmyndir. Kvikmyndir, sjónvarpsþættir og tónlistarmyndbönd koma sér til skila til áhorfenda, en stuttmyndir yfirleitt ekki.

Hugmyndin var að setja inn lista yfir allar íslenskar stuttmyndir frá upphafi. Eigendur þeirra gætu svo sett myndina á síðuna og annað hvort leyft fólki að horfa, sækja eða kaupa hana. Myndir væri hægt að kaupa á DVD eða sem niðurhal. Þannig væri til einn staður þar sem hægt væri að sjá framtíðarleikstjóra og -leikara Íslands og sjá hvað grasrótin er að gera.

Ég skráði lénið Stuttmyndir.com á sínum tíma, svo hafi einhver vit á vefjun og áhuga á að hljálpa mér er það velkomið.


mbl.is Samið um fjármögnun tónlistarvefjar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alvöru tónlistarkona

Amy fór út í búð. Amy fór út með hundinn. Amy fór í frí. Amy fór á fyllerí. Amy söng lag. Nei, tek til baka þetta síðasta. Það er aldrei talað um það sem Amy hefur að atvinnu, enda varð hún ekki fræg á því.

KC McKanzie

Það er alltaf jafn erfitt að sætta sig við það að 0.1% góðra tónlistarmanna ná eyrum fjöldans. Ef svo mikið. Við störum á 3-4 nöfn og sjáum ekkert annað, enda er öðru ekki haldið að okkur. Við vitum allt um þetta fólk en ekkert um alla hina sem eru kannski ennþá hæfileikaríkari.

Ég fékk emil frá þýskri vinkonu um daginn. Hún er að spila í Hollandi og bauð mér að koma að sjá hana. Ég fór í kvöld, sá hana í Paradiso í Amsterdam. Hún var auðvitað fullkomin eins og alltaf. En hefur einhver heyrt á hana minnst? Ekki margir. Hún hefur ekki verið poppuð upp að einhverjum poppguði og markaðssett.

KC_McKanzie

Ég kynntist henni í fyrra þegar ég féll fyrir lagi sem ég heyrði einhvers staðar. Ég varð að vita hver þessi K.C. McKanzie var. Stuttu seinna tók ég upp pínulitla hljómleika sem hún hélt í Amsterdam. Hún var ekki viss um að þetta væri rétti staðurinn til að kvikmynda. Þetta var minnsti staðurinn sem hún spilaði á. En það var ekki um annað að velja. Vegna anna var þetta eini dagurinn sem við gátum notað.

Nú fór ég og sá hana aftur. Núna sem áhorfandi og aðdáandi. Við spjölluðum eftir á og hún sagði mér að ný plata væri á leiðinni í september. Hvort ég væri ekki til í að gera myndband fyrir hana. Við fórum að spá í staði og enduðum í Berlín, heimaborg hennar. Það er því möguleiki að ég verði floginn eða lestaður til Berlínar í sumar til að taka upp myndband fyrir þessa elsku. Minn er heiðurinn.

Hér að neðan er eitt lagið sem við tókum upp í fyrrasumar á þessum ómögulega litla stað í Amsterdam. Lagið heitir Hammer and Nail. Endilega kíkið á mySpace síðuna hennar og hlustið á lag eða þrjú. Hún spurði mig hvort ég væri á leiðinni heim, hún hafi vilja koma til Íslands, svo hver veit. Kannski getið þið notið þess að sjá hana einhvern daginn.

 


mbl.is Vill ekki skilja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíu fyrir verð einnar?

Ég hef talað um það áður að íslenskar kvikmyndir eru of dýrar. Auðvitað er í lagi að gera eina og eina stórmynd ef sagan er sterk og líkur á að hún standi undir sér. Það getur ekki verið góðs viti ef allar íslenskar myndir eru fyrirfram dæmdar til að tapa peningum. Af fréttinni að dæma er það þó sigur ef myndir standa undir sér. 100 milljóna mynd þarf 100.000 gesti, og þá hef ég ekki tekið kostnað kvikmyndahúss inn í dæmið. Það er því afar ólíklegt að sú mynd muni skila hagnaði, nema hún sé stórkostlega vinsæl.

Kosti mynd 10 milljónir, þarf ekki nema 10.000 gesti. Það á ekki að vera svo mikið mál. Kannski 20.000 til að dekka allan kostnað allra aðila og skila hagnaði sem notaður yrði í næstu mynd. En hvernig er hægt að skera kostnaðinn niður um 90%?

Það þarf að byrja á handritinu. Engar hópsenur, engar risastórar leikmyndir sem þarf að byggja. Ekki mikið um sprengingar og klessta bíla. Handritið myndi byggja á sögum af fólki, yfirleitt í nútímanum. Ég hef ekki séð Blóðbönd, en sú saga er um mann sem kemst að því að tíu ára sonurinn er ekki hans. Myndin fylgir svo fjölskyldunni gegn um það erfiða tímabil sem kemur í kjölfarið. Ég veit ekki hvað hún kostaði, en svona mynd er hægt að gera fyrir lítið. Fólk hefur áhuga á fólki, svo það er endalaust hægt að finna leiðir til að gera einfaldar, en spennandi myndir. Með stafrænni tækni er hægt að spara milljónir við hverja mynd. Filmukostnaður er strokaður út og hægt er að klippa myndina á góðri ferðatölvu.

Eitt vandamálið við gerð ódýrra mynda er að Kvikmyndamiðstöðin veitir ekki styrki til kvikmynda sem kosta innan við 50 milljónir. Það þarf sjóð sem styrkir myndir sem kosta minna. Án þess munum við halda áfram að gera dýrar myndir sem geta engan vegin staðið undir sér. Eru það ekki leifar töffaraskapsins sem kom okkur í vandræði í fyrra? Við viljum vera stærri, flottari og betri en við erum?

Sumir eru kannski hræddir um að með lægri framleiðslukostnaði muni markaðurinn fyllast af lélegum myndum, en ég efast um það. Framleiðandi mun, eftir sem áður, vilja ná inn hagnaði og mun varla fara út í gerð lélegrar myndar. Kvikmyndagerðarmenn vilja fá tækifæri til að gera mynd eftir þessa. Slæm mynd mun sjálfsagt skila tapi og fólk mun síður fara að sjá aðrar myndir framleiðandans og leikstjórans. Íslendingar gefa út hundruð bóka á ári. Eru kvikmyndir eitthvað öðru vísi?


mbl.is Þegar kvikmyndir fara í þrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband