Allt í sóma...

Hvað fóru miklir skattpeningar í að redda Kaupþingi? Hvað borgaði Nýja Kaupþing fyrir lánið hennar? Hvað stór hluti höfuðstólsins er vegna verðtryggingar?

Hvernig gengur annars að fella niður skuldir auðmanna? 


mbl.is Útburður í Breiðagerði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sandkassaleikur eða...?

Ég var að tala við góða vinkonu mína um daginn. Sagði henni að mér fyndist þingmenn oft vera eins og krakkar í sandkassa. Hún vildi meina að það væri alls ekki málið. Stjórnmál væru tafl þar sem einskis er svifist fyrir völd og vinagreiða. Eitthvað á þá leið var það. Nákvæm orð hafa eflaust skolast til í minningunni. En sandkassaleikur var það ekki.

Hvað eru Ögmundur og fleiri þingmenn að hugsa með því að draga málið til baka? Eru þau að hlýfa fyrrverandi vinnufélaga, og þá á kostnað hvers? Eru þau að gefa í skyn að hrunið þurfi ekki að gera upp? Er málið kannski að þeim finnist óréttlátt að setja Geir H. Haarde fyrir dóm því aðrir ráðherra hrunstjórnarinnar sluppu? Er Ögmundur kannski að vonast til að stjórnin springi svo SJS fari út og hann komist í formannsslaginn og geti gagnrýnt nýja stjórn úr notarlegheitum stjórnarandstöðunnar? Erfitt að segja og ég ætla ekki að væna hann um hluti sem ég hef ekki sannanir eða almennileg rök fyrir.

Eitt er þó víst að sé ástæðan sú að aðrir þingmenn hafi sloppið, er réttarríkið og þingmenn á villigötum. Það er eins og að sleppa eina bankaræningjanum sem náðist af því hinir komust undan.

En um sandkassaleikinn. Hér á eftir fara orðaskipti kjörins þingmanns og áhangenda. Einn þeirra er í forsvari flokks og vill sennilega komast að á þinginu. Ég er viss um að Ögmundur, og flestir aðrir, eru vandaðri en þessi þingkona, en stundum skil ég ekki hvernig sumt fólk kemst inn á þing. Það er allavega alveg á hreinu að það skilur ekki að það er þarna í nafni kjósenda sinna, skilur ekki þá ábyrgð sem á þeim hvílir. Þeirra verk er að bæta samfélagið sem kaus þau í þessa trúnaðastöðu. Röklausar rökræður, bara til að vera á móti, eru tímasóun og móðgun við kjósendur.

Orð þeirra sem á eftir koma dæma sig sjálf.

Vigdís Hauksdóttir ‎- hvaða status get éf fundið upp á í dag til að tryllla kratana og þeirra miðla :-)

Guðmundur Franklín Jónsson and 15 others like this.

Ruth Bergsdottir - hahhahaaa......

Kristjan Johann Matthíasson - þú ferð nú létt með það

Kristjan Johann Matthíasson - Ræddu bara um Bruzzel og fáránleikhúsið þar

Inga G Halldórsdóttir - það má hræra uppí þeim.. en þau eru jafn blind fyrir því..

Snorri G. Bergsson - kallaðu þá semíkomma, það ætti að duga

Jón Ingi Gíslason - Segðu eitthvað viðeigandi um Láru Hönnu þeirra aðal spunadrottningu í dag......kannske eitthvað ámóta og hún skrifaði í nokkrum færslum um þig í gær....

Jóhannes Ragnarsson - Svo fer skemmtilega í þá að tala um krataeðlið.

Baldur Hermannsson - Það er í góðu lagi að trylla þá vikulega en ekki daglega.

Árni Björn Guðjónsson - Segðu bara að ESB sé eina rétta sambandið fyrir Ísland,sem það er

Árni Björn Guðjónsson - Við þurfum n+yja hugsun og framtíðarsýn í stjórnmálin

Guðmundur Franklín Jónsson - Betri er hálfur krati enn heill.

Ég geri ráð fyrir að það sé í lagi að birta þetta hér, þar sem viðkomadi skrifuðu öll á´opinberan og opinn vegg Vigdísar á Facebook.


mbl.is Skora á þingmenn VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lygar

Arabíska vorið er að breytast í vetur. Túnis má kjósa og það er í sjálfu sér gott. Kosningaþáttaka er um 80% sem er framar vonum. En... og það er stórt en. Sá flokkur sem flest atkvæði virðist fá er íhaldssamur trúarflokkur sem vill innleiða sharia lög. Það er talað um nýja stjórnarskrá. Á hverju verður hún byggð? Og hvað gerum við, vesturveldin, ef túnisar kjósa yfir sig hóp öfgamanna? Nú eru "frelsarar" Líbýu að tala um sharía. Til hamingju, NATÓ.

Í vikunni var því lýst yfir að Líbýa væri frelsuð undan oki Gaddafi. Harðstjórinn er dauður. Gott mál, því það hefði verið ansi erfitt fyrir NATÓ að svara fyrir þá stríðsglæpi sem við höfum orðið sek um. Að svara því hvernig stjórn sem innleiddi heilbrigðis- og skólakerfi sem Bandaríkin geta ekki státað sig af og Evrópa er að skera niður gat verið verri en þeir öfgamenn sem nú munu komast til valda.

Málið er að óþekkir "harðstjórar" gátu verið pirrandi því þeir hlustuðu ekki alltaf á okkur. Þeir gerðu það sem þeir vildu, oft það sem þeim fannst vera betra fyrir sína þjóð. Þeir voru ekki algóðir, langt í frá. Gaddafi og Saddam voru báðir morðingjar. En það eru fleiri. Við og vinir okkar í öðrum löndum meðtalin.

Ástæðan fyrir innrásunum í Írak og Líbýu hafa ekkert með mannúðarmál að gera. Þau hafa allt með olíu, gull og deyjandi heimsveldi að gera. Við virðumst vera að steypa okkur út í alheimsstríð til að verja peningakerfi vesturlanda, sem er úr sér gengið.

Við höfum alltaf trúað að ef alheimsstríð brytist út, yrðu það vondir kallar frá öðrum löndum sem við þyrftum að verjast gegn. Við yrðum alltaf góðu bandamennirnir. En við erum að setja stríðið af stað. Við erum að gera innrásir í önnur lönd. Við erum nasistaþýskaland 21. aldarinnar. Og alveg eins og þýska þjóðin á sínum tíma, erum við að falla fyrir lyginni.

Ég læt tvö myndbönd fylgja með. Annað útlistar ástæðurnar fyrir innrásinni í Írak. Hitt er vitnisburður sjónarvotts, fréttakonu sem sá eyðilegginguna og drápin sem við, vesturveldin, NATÓ stóðum fyrir. Þetta stríð var háð í okkar nafni. Okkur ber skylda til að skilja hvað er í gangi. Gerðu þér þann greiða að horfa á þessi myndbönd. Mundu að Ísland studdi bæði stríðin í Írak og Líbýu.

 

 


mbl.is Líbíumenn taki upp sjaríalög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steve Jobs - snillingur

Fyrsta Apple tölvan sem ég komst í kynni við var upphaflegi Makkinn hjá vinkonu mömmu. Fórum þangað í heimsókn og þarna stóð hann. Lítill skjárinn í svart-hvítu. Ég fékk að leika mér með tölvuna og reynslan skildi eitthvað eftir sig.

Systir mín var seinna með Makka á heimilinu. Frábær tölva. Ég átti auðvitað PC ens og allir, en Makkinn hafði eitthvað sem ég gat ekki útskýrt.

Það var svo 2004 að ég fór að læra kvikmyndagerð. Þurfti Makka til að geta notað Final Cut Pro. Keypti notaðan PowerMac. Ég myndi auðvitað nota ThinkPad tölvuna í allt annað, enda ein af betri gerðunum með skjá í hárri upplausn og fleira gott. Örfáum vikum seinna var eg hættur að nota IBM tölvuna og var farinn að nota Makkann í allt. Ekki bara klippingar.

Ég þurfti ferðatölvu og keypti mér tólf tommu PowerBook. Besta tölva sem ég hafði átt. Hún var notuð einhverja klukkutíma á dag í sex ár og aldrei hikstaði hún. Hún var seld siðasta sumar þegar ég keypti MacBook Pro. Ég sakna gömlu tölvunnar og sé eftir að hafa selt hana. Ekki að hún nytist mikið í dag. Hún myndi ekki ráða við forritin sem ég er að nota í dag, en hún var orðin vinur. Sex ár er langur tími og hún klikkaði aldrei.

Það er erfitt að útskýra hvað gerir Makkann svona sérstakan. Betra viðmót? Fallegri hönnun? Það að hlutirnir virka bara? Ég náði mér í Final Cut Pro X um daginn. Var forvitinn. Allir virðast hata þetta forrit. Allt of mikil breyting frá síðustu útgáfu. Allt of einfalt. Vantar í það. Er leikfang, ekki "pro". Ég varð að prófa. Ég horfði á skjáinn og skildi ekkert. Hafði gert stuttmyndir, myndbönd og klippt heilu hljómleikamyndirnar á Final Cut Pro, en ég sat bara og horfði á skjáinn. Beit þó á jaxlinn, skrifaði örstutt handrit, hringdi í leikkonu og við tókum upp stuttmyndina White Roses. Tók mig hálfan dag að læra grunninn í nýja klippiforritinu og klára myndina. Gerði svo tónlistarmyndband um helgina. Ég skyldi nota Final Cut Pro X, ekki eldri útgáfuna. Það virkaði vel og eftir þessi tvö verkefni hef ég engan áhuga á að fara til baka. Það nýja er leiðin fram á við.

Og svona var Steve Jobs. Aldrei hræddur við að taka skref fram á við. Fólk horfðu stundum í forundran, hvað er hann að gera? Þetta verður flopp. Og vissulega klikkaði hann af og til. En fyrirtækið sem hann byggði upp, tölvurnar, stýrikerfið. Steve breytti heiminum með því að fara slóðir sem engum datt í hug að fara, taka áhættur sem hefðu getað sett hann og Apple á hausinn. Hann hafði sýn, trúði á hana og kom henni í framkvæmd.

Steve Jobs verður saknað. Hvernig mun Apple breytast? Hvaða áhrif mun fráfall hana hafa á okkur Apple notendur? Sjáum til.

Læt myndbandið fylgja með.

 

Afsaka innsláttarvillur og annað. Skrifaði þetta hratt og fór ekki yfir, því ég er að verða of seinn í vinnu!!! 


mbl.is Steve Jobs látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bull...

Nýji iFónninn lýtur eins út og sá gamli. Hann er með sömu skjáupplausn, eftir því sem ég best veit. Hann heitir það sama, fyrir utan essið. Held að það sé allt sem þessir símar eiga sameiginlegt. iPhone 4S er nýr sími. Svikin eru að nota sömu skel og kalla hann 4S, frekar en 5.

Hvað um það. Ég var að gera myndband og læt það fylgja með. Fyrir áhugasama get ég deilt iPhone skrá.

 


mbl.is iPhone-aðdáendur illa sviknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einhverskonar heimsendir

Mannkynið er á tímamótum. Eftirstríðsárin eru að renna sitt skeið. Árin 1945-2012 verða sennilega dásömuð í framtíðinni. Þegar fólk átti nóg af öllu, nóg var til af olíu og vatni. Nýtt tímabil er að renna upp. Betra eða verra? Erfitt að segja til um það.

Það er svolítið spaugilegt að fylgjast með stjórnmálamönnum tala um lausnir. Núverandi kerfi virkar ekki og á meðan við búum við það, munu engar lausnir finnast. Flest lönd heimsins eru að sligast undan skuldaklafa, en þó virðist enginn eiga skuldirnar. Hvernig getum við öll skuldað? Einfalt. Tökum bandaríska kerfið sem dæmi. Flest peningakerfi heimsins eru byggð á sömu hugmynd.

Segjum að ríkinu vanti 100 krónur. Það fær krónurnar lánaðar hjá seðlabankanum. Þessar krónur fara í umferð, við fáum þær í laun, eyðum þeim í verslunum og borgum skatta. Eftir ár vill ríkið endurgreiða lánið sem það tók hjá seðlabankanum. 100 krónur og 3% vextir. 103 krónur. Hvaðan koma krónurnar þrjár? Þær eru ekki til, því ríkið gaf þær aldrei út. Ríkið þarf því að taka annað lán til að borga vextina. Nú eru 103 krónur í umferð, svo þær eru 3% minna virði en í fyrra og við skuldum vextina. Verðbólga. Leyfum þessu að gerjast í 100 ár og útkoman er sú að flest lönd jarðar eru að drukkna í skuldum. Það ætti að vera augljóst að við getum aldrei borgað niður skuldirnar, því við verðum að taka lán til að borga vextina.

Allt tal um að kreppunni sé að ljúka var því bull og gat aldrei staðist. Þetta vissu fjármála- og forsætisráðherrarnir sem nú tala hissa um að við séum að taka aðra dýfu. Annaðhvort vissu þeir að dýfan kæmi, eða þeir eru ekki starfi sínu vaxnir.

Þrjú prósent virkar kannski ekki mikið, og stundum eru vextirnir lægri. Hvað er vandamálið? Málið er að vextirnir bætast ofan á vextina. Þrjú prósent í dag eru töluvert hærri tala en þau voru fyrir 10 árum.

Hér er lítil saga sem sýnir hvernig ríkisskuld hefur þróast. Segjum að þú sért með tvö glös og poka af salti. Þú setur eitt saltkorn í glasið á fyrsta degi. Tvö á öðrum degi, fjögur, svo átta. Eftir 27 daga er glasið kvartfullt. Á 28 degi er það hálft. Dagur 29 og glasið er fullt. Á þrítugasta degi eru glösin bæði full. Svo eru það fjögur glös, átta glös.

Skuld sem virðist lítil í upphafi endar sem risavandamál. Það kemur að því að kerfið ræður ekki við meiri skuld og þá hrynur það. Við erum komin að þeim punkti. Á meðan valdhafar setja plástur á beinbrotið og segja sjúklingnum að ganga, grær brotið ekki. Það er ekki nóg að auka við skuldum í formi styrkja, "bailout" eða hvað þetta heitir. Við erum að berjast við eld með eldi. Auka við skuldabirgðina.

Við verðum að hugsa dæmið upp á nýtt. Draga djúpt andann. Við getum ekki borgað okkur út úr þessum vanda. Við verðum að finna upp nýtt kerfi. Við erum á tímamótum, erum að upplifa einhverskonar heimsendi. Komandi mánuðir verða erfiðir, en það er undir okkur sjálfum komið hvað bíður okkar handan við þrengingarnar.


mbl.is Heimurinn á barmi nýrrar kreppu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Telst það morð ef ríkið fremur?

Bandarikin hljóta að vera hrokafyllsti hræsnarinn í samfélagi þjóðanna. Þau þykjast vera lýðræðislegr réttarríki og ráðast á önnur ríki ef þau erru ekki nógu lýðræðisleg. Sérstaklega ef þau drepa eigin þegna. Ríki sem gera svoleiðis er stjórnað af vondum einræðisherrum sem verður að koma frá. Sérstaklega ef olíu er að finna og einræðisherrarnir eru ekki til í að gefa Ameríku forgang í svarta gullið. Annars eru þau látin í friði.

Í nótt sýndu Bandaríkin að þau eru sjálf þriðja heims ríki sem drepur eigin þegna. Sjö af níu vitnum hafa dregið framburð sinn til baka. Eitt þeirra tveggja sem halda fast við söguna er maður sem hefur sjálfur játað á sig morðið. Það eru engar sannanir fyrir því að sá sakfelldi hafi framið glæpinn. Hann hefur neitað sakargiftum í 22 ár. En hann varð að deyja. Myrtur af ríkinu sem vill ekki viðurkenna herfileg mistök í meðferð málsins.

Hverjum er ekki sama. Hann er svartur og vitnið var hvítt. Þetta eru suðurríkin. Þar hafa þeir sína hentisemi í svona málum.

Það er alveg stórmerkilegt að vestrænt ríki skuli enn stunda morð á eigin þegnum. En þetta er svo sem ekkert venjulegt vestrænt ríki. Þetta er Ameríka hin stórfenglega, sem hikar ekki við að gera innrás í önnur lönd, ræna fólki og senda það í fangabúðir án dóms og laga. Þetta er Ameríka sem tekur það ekki í mál að Palestína verði sjálfstætt ríki. Þetta er hrekkjusvínið, hrottinn sem eignar sér skólalóðina, stelur namminu okkar og allir eru hræddir við.

Er ekki kominn tími til að við stöndum upp og látum taka nafn Íslands af lista hinna undirgefnu sem studdu stríðið í Írak og morðið á Saddam Hussain? Er ekki hugmynd að draga stuðning okkar við olíu/gull stríðið í Líbýu og hið óumflýjanlega morð á Gaddafi til baka? Hvernig datt okkur í hug að styðja þann gjörning eftir allt sem á undan er gengið?

Segjum hingað og ekki lengra. Stöndum upp í hárinu á hrekkjusvíninu. Morð eru glæpur og ættu aldrei að vera framin af ríkjum.


mbl.is Troy Davis tekinn af lífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegasalt

Ég man þá tíð þegar "hægri" menn voru í ríkisstjórn. Allt sem hægt var að einkavinavæða var einkavinavætt. Vinahringurinn endaði í bankakerfi sem var 11 sinnum stærra en hagkerfið og steypti landinu í dýpstu kreppu síðan fyrir stríð. Og landið okkar hefur séð ansi djúpar kreppur. Voru það ekki hægrimenn sem töngluðust á því að vinstrimenn kynnu ekki að fara með peninga?

Þeir töluðu um að við þyrftum að vernda landið fyrir óæskilegum útlendingum. Sögðu það kannski ekki hreint út, en létu það allavega ekki fara í taugarnar á sér þegar fólki var hent úr landi eftir áralangt hringl í kerfinu. Þeir berjast á móti ESB aðild með öllum ráðum. Björn kom okkur þó í Schengen og opnaði þannig landið fyrir hverjum sem koma vildi, nema kannski brúna fólkinu úr þriðja heiminum.

Hægrið studdi stríð sem allir hefðu átt að sjá að byggt var á lygum. Var það af því að Davíð var besti vinur bandaríkjaforseta eða hékk eitthvað annað á spýtunni?

Allir vilja verðtrygginguna burt, en enginn tekur af skarið. Sjálfstæðisflokkurinn hafði 17 ár til að gera eitthvað í málinu, en var of upptekinn við annað.

Það er auðvelt að setja út á hægrið eftir 17 ára setu í ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn skildi við landið í rúst. Vandinn er þó að vinstri stjórnin er ekki að standa sig neitt betur. Verðtryggingin lifir enn, við studdum innrásina í Líbýu, heimilin eru mergsogin af bönkunum, nýju stjórnarskránni er stungið undir stól eins og skýrslunni um stöðu bankanna forðum. Það skiptir engu hver er í stjórn. Pólitíkusar hugsa fyrst og fremst um sjálfa sig. Henda svo í okkur einhverri mylsnu fyrir kosningar svo þeir missi ekki vinnuna.

Núverandi kerfi þar sem stjórnmálaflokkar skiptast á að ráðskast með almúgann virkar ekki. Vegasaltið fer upp en svo kemur maður niður á rassinn og andstæðingurinn fer upp. Það er allt í lagi, því við förum upp næst. Á meðan við erum í stjórnarandstöðu, vitum við allt betur. Þegar við fáum tækifæri til að breyta einhverju, gerist ekki neitt.

Hér er hugmynd. Ekki ný, en kannski verð að skoða. Við kjósum fólk á þing. Enginn er í stjórn. Engin stjórnarandstaða. Fólk er inni á þingi fyrir kjósendur. Allir þingmenn geta lagt fram frumvörp og allir þingmenn geta kosið um frumvörpin. Ekkert hægri, ekkert vinstri. Engir flokkar. Bara fólk sem kosið var af öðru fólki.

Læt litla stuttmynd sem ég gerði um helgina fylgja með, fyrst ég minntist á stríði sem við studdum þegar við gengum í hóp hinna undirgefnu.

 


mbl.is Þakkar fyrir að salur Alþingis sé ekki stærri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ritskoðun og breimandi þingwannabees

Mér var eytt af vinalista rétt í þessu. Veit ekki alveg hvað ég gerði af mér. Var kannski ekki alveg sammála fésbókarvininum, en ég veit það fyrir víst að ég sagði ekkert sem réttlætir Fésbókarútlegð. Kannski fór það í taugar Guðmundar Franklín að ég setti út á að hann hefði eytt tveimur statusum á tveimur dögum, eftir að ég svaraði honum. Það er kannski auðveldara að eyða þeim sem eru ósammála en að svara fyrir sig.

Það er ljótt að bölva og á kannski ekki að eiga sér stað í þingsal, en mér finnst ritskoðun öllu verri. Fólk sem vill bjóða sig fram og telur sig hafa erindi inn á Alþingi má aldrei verða uppvíst af ritskoðun. Við viljum ekki þjóðfélag sem byggir á ritskoðun og lygum. Við viljum réttlátt og opið þjóðfélag þar sem hægri og vinstri skipta engu máli. Lifa allavega í sátt. Þar sem skoðanir okkar eru virtar.

Ég þekki manninn ekki persónulega og ég er yfirleitt ósammála honum, en ég hafði gaman af því að lesa það sem hann skrifaði. Ég get það ekki lengur því hann hefur eytt mér út af sínum vinalista. Hann þarf þá ekki að hafa áhyggjur af pirrandi andsvörum frá mér. Hann er sennilega að hreinsa til, tálga vinalistann. Sjá til þess að aðeins fylgjendur og já-fólk geti svarað honum.

Ísland á betra skilið. 


mbl.is Þingmenn fari á námskeið í mannasiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upprisa?

Spurning með að fara að blogga aftur, en er þetta rétti vettvangurinn?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband