Færsluflokkur: Kvikmyndir

Veljum íslenskt? You too!

Það er gott að lesa um að fólk sé að versla heima og velja íslenskt. Sumir segja mér kannski að þegja, að þeir hefðu frekar viljað fara erlendis og að einhver hafi haft utanlandsferðina af þeim. Það er þónokkuð til í því. En úr því sem komið er, er gott að fólk tekur sig saman um að minnka innflutning eins og hægt er og styðja innlenda framleiðslu. Undanfarin ár voru blekking og því varla hægt að bera framtíðina saman við þau. En ef við tökum rétt á nútímanum, getur framtíðin orðið björt.

Ég hef talað um að sparka spillingarliðinu, svo ég held mig nú við annað. Sprotana. Það er ýmislegt hægt að gera. Menningin kemur í huga, því þar er ég að rembast. Ég var að klára kvikmyndarhandrit og get farið að undirbúa tökur. Þetta strandar auðvitað á peningum, eins og flest. Kvikmyndagerð er dýrasta listform sem hægt er að fara út í. Ég hef minnst á það áður, en ég fór að skoða vefsíðu Kvikmyndamiðstöðvarinnar. Sú stofnun getur séð framleiðanda fyrir 50% framleiðslukostnaðar. Allt í lagi með það, en það sem stendur í mér er að lágmarks kostnaður við myndina verður að vera 50 milljónir. Einhvers staðar las ég að Börn hafi verið gerð fyrir 200.000 dali, um 23 milljónir á núverandi gengi. Það þarf því engar stórar upphæðir ef handritið er þannig skrifað að framleiðslukostnaði sé haldið í skefjum. Kvikmynd sem kostar um 20 milljónir, er vel skrifuð og leikin á auðvitað mikið meiri möguleika á að skila hagnaði en dýrari mynd. Hún ætti líka að hafa meiri möguleika á að verða framleidd, því áhætta fjárfesta er minni.

Stærsti kostnaðariður í kvikmyndagerð eru laun. Sá kostnaður skilar sér því beint út í þjóðfélagið, a.m.k. þegar um íslenska leikara er að ræða. Filmukostnaður er einnig stór hluti, en stafræn tækni er nú komin á það plan að hægt er að sleppa filmum alfarið án þess að það komi niður á gæðum. Ég myndi því vilja sjá fleiri kvikmyndir fyrir þann pening sem til er. 4-6 kvikmyndir á ári er gott fyrir okkar litla þjóðfélag, en hvað ef við gætum þrefaldað þá tölu? Þar með værum við komin með þrefalt meiri möguleika á tekjum, hérlendis og erlendis, fyrir sama tilkostnað. Ég tala ekki um þau menningarverðmæti sem myndu skapast.

Gott kvikmyndahandrit er ekki bara grunnurinn að kvikmynd. Það er góð saga, og sem slík ætti hún að geta virkað sem bók. Þetta sést oft erlendis, þar sem bækur eru skrifaðar upp úr handritum og gefnar út um það bil sem myndin er frumsýnd. Íslendingar eru duglegir við að skrifa, og það sem meira máli skiptir, gæði íslenskra bókmennta eru með því besta sem gerist. Eins og sést hefur á útgáfum erlendis undanfarið eru íslenskar bækur vinsælar í Evrópu. Er ekki spurning með að stórefla þýðingar og markaðssetningu á íslensku menningarefni, bókum, kvikmyndum og tónlist, erlendis? Eins og kerfið er nú, eru allir að vinna í sínu horni. Hvað er væri til stofnun eða fyrirtæki sem hjálpaði íslendingum að koma sínu efni að heima og heiman? Málið er ekki bara að við veljum íslenskt, heldur er um að gera að fá útlendinga til þess líka.


mbl.is Jólaverslunin færist heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er með verkefni fyrir málara

Núna er ég að vinna við að koma kvikmyndinni Undir Svörtum Sandi í framleiðslu. Í einu atriðinu hangir málverk af aðalpersónunum tveimur uppi á vegg. Þetta smellpassar auðvitað við þessa setningu úr fréttinni, "Mikilvægt er einnig að tekið sé tillit til þess í styrkveitingum borgarinnar að landamæri milli listforma og menningarheima hafa opnast og að stöðugt koma fram nýjar tjáningarleiðir í listum."

Þetta verður eflaust eitt af skemmtilegum verkefnum í kring um kvikmyndagerðina.


mbl.is Vilja bæta aðstöðu fyrir listamenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betri er kartafla en retta

Það er nú gott að McCain bjóði fram aðstoð sína. Kannski hann geti hjálpað Obama að læra biblíuna utan að eins og Palin. Hann getur þá kvótað biblíuvers meðan hann drepur, eins og gaukurinn í Tarantúllu myndinni. Kannski hann geti hjálpað Obama að hætta að reykja. Það virðist nefninlega vera hans stærsti galli.

Sem gerir hann að fjandi góðum forseta. Ef blysin eru hans stærsta vandamál er hann svo nálægt fullkomnun að framtíðin getur jafnvel talist björt. Lítil hætta á því, en það má láta sig dreyma.

Annars var ég að hugsa, af gefnu tilefni. Allt þetta anti-reykvæl og fólk sem er bara happí með Geira og Árna af því áfengi hækkar. Það er eins og fólk trúi því að áfengi og tóbak drepi alla sem deyja. Það er bara ekki svo. Held ég. Maður hefur þá allavega gaman af meðan þetta endist.

Kannski er ég ekki marktækur. Ég er að falla nett fyrir Film Noir, myndunum þar sem allir reykja og drekka eins og enginn sé morgundagurinn. Var alltaf hrifinn af dæminu, en nú er ég alveg að missa mig. Sá Casablanca um daginn eins og frægt er varla orðið, Kiss Me Deadly, The Big Sleep. Ég verð bara að viðurkenna að nútímaskvísurnar, edrú og reyklausar eru ansi litlausar miðað við Ingrid og hennar stöllur. Og voru þær þó í svart hvítu.

En hvað um það. Skál. Á einhver eld? 


mbl.is McCain heitir Obama aðstoð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fráhvarfseinkenni

Ég er að upplifa fráhvarfseinkenni. Síðustu vikur hef ég verið að fínpússa handritið að Undir Svörtum Sandi. Daglega hef ég lesið eitthvað og lagfært. Stundum bara ritvillur eða orðalag, stundum hef ég hent út heilum atriðum og skrifað ný.

Undir Svörtum Sandi

Nú eru fimm dagar síðan ég kláraði nýjustu útgáfuna. Ég geri ráð fyrir að vera búinn með þetta, svo ég ákvað að bíða í nokkra daga áður en ég færi yfir þetta aftur. Þannig væri ég vonandi minna samdauna sögunni og gæti séð hana meira eins og áhorfandi og minna sem höfundur.

Fimm dagar eru langur tími. Mig klæjar í puttana að lesa þetta, breyta og bæta, en ég var búinn að lofa sjálfum mér að gera það ekki fyrr en á fimmtudag. Það er á morgun.

Hún er svolítið merkileg, þessi tómleikatilfinning sem maður finnur þegar verkefni er klárað. Til að bæta það upp hef ég verið að leita að leikurum í hlutverkin. Ekki tímabært kannski, en ég verð að gera eitthvað.  


mbl.is Ein besta mynd ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gerist nú?

Á undanförnum árum hefur íslenskum kvikmyndum fjölgað, en það sem meira máli skiptir, gæðunum hefur farið mikið fram. Íslenskar kvikmyndir eru ekki lengur einfaldar, ofleiknar blótsyrðakrukkur. Það er gaman að sjá Mýrina á þessum lista og Baltasar verða smám saman nafn úti í heimi. Köld Slóð var ekki síðri, nema kannski kameruvinnan í upphafi myndarinnar. Svo var Astrópía að fá viðurkenningu um daginn á fantasíuhátíð í Bandaríkjunum. En hvað gerist nú, þegar allir eru að fara á hausinn. Hvaða áhrif mun hrunið hafa á kvikmyndagerð á Íslandi?

Ég var að lesa reglur Kvikmyndamiðstöðvarinnar og komst að því að sú stofnun leggur til allt að 40% af heildarkostnaði myndarinnar en að sá kostnaður megi ekki vera innan við 50 milljónir. Þetta er sjálfsagt gert til að sía út þá sem er ekki alvara, en ég var samt ekki viss um að þetta væri rétta leiðin. Ísland er lítill markaður og mér finnst það skipta máli að myndir reyni að standa undir sér.

Einhvern tíma skrifaði ég um sjö milljóna kvikmyndir. Sú tala gæti verið breytt í dag vegna gengisfalls krónunnar, en hugmyndin ætti að vera skýr. Ég vildi stofna sjóð eða fyrirtæki sem framleiddi, eða aðstoðaði við framleiðslu kvikmynda í fullri lengd sem kostuðu ekki meira en sjö milljónir, fullkláraðar. 10 myndir yrðu framleiddar árlega. Þetta hljómar kannski eins og verksmiðja, en það er líka hægt að segja um Hollywood og ekki er allt slæmt sem þaðan kemur.

Hvað sem við erum nú, verðum við að sjá til þess að menning okkar íslendinga verði ekki fórnarlamb kreppunnar, því án menningar erum við ekkert.

Setti inn tvo hlekki á eldri færslur eftir að færslan var skrifuð:
26.08.07, Kvikmyndalandið Ísland
05.11.08, Hrunið - Kvikmynd um fall Íslands


mbl.is Mýrin ein af bestu myndum ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undir Svörtum Sandi - handritið tilbúið?

Fyrir þau sem eru að fylgjast með þróun kvikmyndarinnar, er ég með fréttir. Ég held að handritið sé tilbúið. Ég þarf að prenta það út og lesa í heild sinni í einni törn til að fá tilfinningu fyrir flæði sögunnar, en ég held að þetta sé bara komið. Handritið er 120 blaðsíður. Hver blaðsíða er um það bil mínúta í bíó, svo við erum að tala um tæplega tveggja tíma mynd. Veit ekki hvort það er of langt. Íslenskar myndir hafa yfirleitt ekki farið langt yfir 90 mínúturnar og þetta er mitt fyrsta verk í fullri lengd.

Nú er bara að sjá hvernig þessu verður komið í verk. Hvenær fara tökur fram, hver framleiðir, hverjir munu vinna að henni, hvaða leikarar passa í hlutverkin, hvernig verður þetta fjármagnað? Handritið er kannski tilbúið, en við erum rétt að byrja. 


mínSýn

Ég hef aldrei skilið af hverju sjónvapsefni og kvikmyndir þurfi að kosta svona mikið. Launaliðurinn er dýrastur, eins og sést á fréttinni. Hér á eftir kemur smá smtterí sem ég setti inn sem athugasemd hjá Ómari, þýtt og staðfært fyrir þessa síðu. Ekki endilega um Pál, heldur bara smá pælingar um RÚV.

Hefur einhvern tíma verið áhersla RÚV að sýna íslenskt efni af einhverju ráði? Dýr innanhúss framleiðsla ekki svo mikilvæg. Nóg er til að sjálfstæðu efni á Íslandi. Hvað eru framleiddar margar boðlegar stuttmyndir á íslandi ár hvert og hversu margar eru sýndar á RÚV?

Hafa allar betri sjálfstæðar heimildamyndir verið sýndar á RÚV? Væri gaman að heyra hvað Hjálmtýr hjá Seylunni segði um það.

Á Íslandi er starfandi kvikmyndaskóli. Það þarf enginn að segja mér að útskrifaðir nemendur séu allir starfandi hjá stærri fyrirtækjum. Þeir eru að framleiða eigið efni sem aldrei er sýnt, nema kannski á örfáum kvikmyndahátíðum erlendis.

Ég hef nokkrum sinnum skrifað um sjö milljón króna hugmynd mína. Ég taldi mig geta framleitt kvikmynd í fullri lengd fyrir þann pening og færði rök fyrir því. Málið er að efni þarf ekki að vera dýrt í framleiðslu. Það er voðalega gott og gaman að hafa ljósabíl sem lýsir upp risastóru leikmyndina svo að 35mm filmurnar fái nóg ljós, en það er hægt að gera hlutina öðruvísi. Ef David Lynch getur tekið upp kvikmyndina Inland Empire á Sony PD-150 (3CCD miniDV vél), og Danny Boyle 28 Days Later á Canon XL-1s (líka 3CCD miniDV), þurfum við ekki að vera að flottræflast með allt það dýrasta og fínasta. Ég á betri vél en þessar, sem tekur upp í HD og tölvu sem klippir það án þess að hiksta, svo ekki getur vélbúnaðurinn verið dýr.

Tæknin sem notuð er við tökur skiptir minnstu máli. Það er sagan og leikurinn sem skilur á milli góðra og lélegra mynda.

RÚV á að vera sjónvarp (og útvarp) allra landsmanna og leggja áherslu á íslenskt efni, enda er það nær okkur, sennilega ódýrara og fjárfesting í menningu og framtíð þjóðarinnari.

 

Ég skal taka við starfi útvarpsstjóra, skaffa minn eigin bíl og "sætta ming við" 700.000 á mánuði. Þannig sparast tæpar 14 milljónir á ári. Ég mun efla fréttadeildina og gera hana óháða og stórauka íslenskt efni í dagskránni. Ég hef það á tilfinningunni að Ómar yrði endurráðinn ef hann hefði áhuga.

Áhugasamir sendi samning til undirritunar á veffang vinstra megin á síðunni.

PS. Til Hamingju Ísland með 90 ár fullveldis! 

 


mbl.is Árslaun útvarpsstjóra 18 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

33 á 41

Hljómleikaferðalög eru erfiðisvinna. Þannig lagað. Hljómsveitirnar eru í hörku vinnu, en það er fólkið í kring um þær sem getur þurkað af sér svitann. Í síðustu viku tók ég upp tvenna hljómleika með Uriah Heep. Byrjað var að byggja sviðið upp úr tvö, svo var hljóðið prófað, svo kom hljómsveitin í sándtékk og allt var tilbúið um sex. Þá var farið í mat og svo voru allir tilbúnir fyrir hljómleikana sjálfa sem voru gallharðir. Um 11 var allt yfirstaðið og þá mátti taka allt saman og pakka inn. Um eitt var svo lagt af stað til næstu borgar.

Mér var sagt að þeir hefðu spilað á 33 hljómleikum á 41 dögum. Ekki slæmt fyrir hljómsveit sem er að nálgast fertugt.

Auðvitað getur soðið upp úr, en andinn var ótrúlega góður og fólk afslappað. Eitt sem kom upp á var þegar upphitunarhljómsveitin vildi nota ljósasjóið. Yfirmaður túrsins hélt nú ekki. Þegar þeir héldu áfram að fikta í ljósaborðinu spurði hann hvað þeir væru að gera. Þeir sögðust hafa leyfi eigandans. Hann horfði ískallt í augu stráksins og sagði, þetta eru mín ljós. Ég á þau, við ferðumst með þau og ég hef engan áhuga á skemmtilegum uppákomum þegar hljómleikarnir eru byrjaðir. Eigandi staðarins hefur ekkert með það að gera. Þar fyrir utan, á ég staðinn í kvöld. Ég á þig. Gerðu það sem þér er sagt og láttu ljósin vera.

En allavega, þetta gekk rosa vel. Vonandi get ég sýnt eitthvað innan fárra daga. 

 


mbl.is 15 tónleikar á 19 dögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uriah Heep uppteknir

Var að skríða inn úr dyrunum, klukkan langt gengin í fjögur að nóttu til. Allt er stillt og hljótt.

Síðustu dagar hafa verið allt annað en rólegheit. Ég fékk mér alveg ofboðslega stóran bita og svelgdist næstum því á honum. Ég myndi setja saman hóp og kvikmynda tvenna Uriah Heep hljómleika. Það gæti ekki verið svo erfitt. En allt klikkar auðvitað.

Á þriðjudag rétt fyrir hádegi fæ ég þær fréttir að ég eigi að taka hljóðið upp á margrása tæki, ekki bara myndina. Það varð uppi fótur og fit því ég hafði enga möguleika á því. Þetta reddaðist samt. Hljóðið var tekið upp á 24 rásir í voða gæðum (24bit, 48kHz (töluvert betra en CD)) og hljóðmaðurinn sagði mér að allt hefði gengið upp. Hann hafði hlustað á upptökuna frá í gær og hún hljómar víst alveg rosalega vel. Ég hafði eitthvað skoðað myndina og það sem ég sá leit mjög vel út. Ég hef trú á að við höfum náð að búa til eitthvað spes sem við og hljómsveitin getum verið stolt af.

enschedehilco_17

Andrúmsloftið er mikilvægt þegar farið er í svona verk. Einhver hollendingur skipti sér af og var að setja reglur. Allt átti að fara í gegn um hann. Hann var leiðinlegur, en ég röflaði ekkert. Ég sá hann svo ekki á hljómleikunum, enda sóttist ég ekkert eftir því. Tour manager hljómsveitarinnar vildi halda utan um allt, þar á meðal okkur og það er bara fínt. Ég sá að hann gat orðið afskaplega orðljótur ef honum fannst fólk vera úti að aka og hann var eitthvað skellandi hurðum í dag, en við fundum aldrei fyrir neinu öðru en elskulegheitum.

Undanfarnir dagar, frá þriðjudagsmorgni, hafa verið skrítnir. Stundum hefur maður svo mikið að gera að tíminn hverfur. Þessir dagar hafa verið eitthvað mikið meira en það. Þess má geta að á miðvikudag sagði konan, "sjáumst á laugardaginn". Ég sé hana í fyrramálið í fyrsta skipti síðan þá, þótt við séum bæði heima utan vinnutíma.

Þetta er þó ekki búið, því nú þurfum við að setja þessa 25 klukkutíma af efni inn í tölvu og byrja að klippa. Það þarf að hljóðblanda svo að úr verði stereo og 5.1 hljóð. Svo þarf að setja allt saman á DVD. Þetta er rétt að byrja, en mikilvægasti hlutinn er búinn og hann heppnaðist vel, sýnist mér.


Kvöldið fyrir stóra daginn

Dagur er að kveldi kominn, en morgundagurinn lætur mig ekki í friði. Á morgun og föstudag mun ég, ásamt vöskum hópi, kvikmynda tvenna hljómleika bresku (sorry) hjómsveitarinnar Uriah Heep. Undirbúningurinn gekk vel þangað til í gær. Einn af sex kvikmyndatökumönnum forfallaðist. Ekkert stórmál, því ég hafði lofað fimm. Svo heyrði ég klukkan 10:33 í gær að við ættum að taka upp hljóðið líka. Ég var ekki par sáttur, enda á ég ekki multitrack tæki og hef ekki verið að vesenast í hljóðinu áður. Ég sendi emil til allra sem ég þekki í bransanum og hingdi í fleiri. Ekkert gekk. Þetta reddaðist þó í dag. Ungur maður sem þekkir einhvern sem ég kannast lauslega við hafði samband og bauð fram þjónustu sína og 24 rása græjunnar sinnar.

Hugmyndin hafði verið að eyða mánudegi til miðvikudags í að hóa saman hópnum, fá sér kaffi og ræða málin. Við myndum skoða hver væri á bíl og hvernig best væri að standa að öllu. Það gerðist ekki, því ég var á útopnu að redda hljóðdæminu. Eins og einhver tæknilegur umboðsmaður hljómsveitarinnar sagði, ef þetta er ekki tekið upp á fjölrásatæki getum við alveg eins sleppt þessu. Ég get svo sem ekki verið fúll út í hann, þó ég hafi rétt fyrir mér og þeir hafi misskilið mig. Þegar maður er farinn að vinna með svona frægu fólki verður maður að standa sig og redda hlutunum, eða sleppa þessu. Vilji ég þykjast vera kvikmyndagerðarmaður af einhverjum kaliber verð ég bara að gera það sem gera þarf.

Nú er sem sagt liðið á kvöldið fyrir fyrri hljómleikana. Á morgun kemur í ljós hvort hvort ég hafi staðið mig í undirbúnungnum. Morgundagurinn er sennilega mikilvægasti dagur minn til þessa í kvikmyndabransanum. Það eru miklir peningar í húfi og mannorð manns, þannig lagað. Gangi þetta upp, verði þetta góð hljómleikamynd, er framtíðin björt. Klikki þetta er ég kominn aftur fyrir byrjunarreit.

Nú er ég farinn að sofa. Morgundagurinn verður langur. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband