Færsluflokkur: Ferðalög

Smíð bíl og keyr

Ég man lítið eftir þessu, enda ekki til á þessum árum. Það væri forvitnilegt að vita hvers vegna Ísland byrjaði að keyra vinstra megin til að byrja með. Bretar og þeirra nýlendur, auk Japana keyra vinstra megin, en eftir því sem ég best veit var meginland Evrópu, þ.m.t. Danmörk, alltaf hægra megin. það er samt gott mál að þetta var gert 1968, enda verður svona aðgerð aðeins erfiðari og dýrari eftir því sem umferð og hennar mannvirkjum fjölgar or þau verða flóknari.

Ég og megnið af fjölskyldunni keyrðum um Skotland í fyrrasumar. Vinstra megin. Allir lifðu af og mér fannst þetta mun einfaldara en ég hafði búist við. Það tekur smá tíma að venjast vinstri umferðinni, en þegar það venst er eins og ekkert annað sé sjálfsagðara. það var meira að segja soldið skrítið að keyra hægra megin aftur.

Burton_vor_Motor-Sport-Museum-HockenheimEn fyrst maður er að jarma um bíla. Hefur einhverjum dottið í hug að byggja eigin bíl? Þá á ég ekki við fjallabíl. Burton Cars eru stórsniðugir. Yfirbyggingin er fjarlægð af gömlum Citroen Bragga og nýja boddíinu pússlað ofan á. Það besta er að þessi bíll er léttur, eyðir aðeins 5L/100km og lítur alveg stórskemmtilega út. Svo kostar ódýrasta útgáfa ekki nema tæpar 4000 evrur. Það vantar að vísu þak en það er bara skemmtilegt. Öryggisbelti vantar líka, skilst mér, en hann fær samt skoðun. Alla vega hér í Lálandi. Það væri gaman að dúlla sér við einn svona ef það væri bílskúr við húsið.


mbl.is Hægri umferð 40 ára gömul
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ernst II: Í Þýskalandi á morgun

Það er spurning hvað kínverjum finnst um einhvern ráðherra frá Íslandi, talandi um mannréttindi. Ef einhver spyr hversu stórt Ísland er, væri hægt að svara að fyrir hvern íslending eru 5000 kínverjar. Við erum 1000 sinnum færri en bandaríkjamenn og um 1300 sinnum færri en íbúar ESB. Þó erum við fremri flestum þjóðum í flestu. Það verður gaman að sjá hvað kemur út úr þessaari ferð.

Fyrir þremur dögum sagði ég frá Ernst van Damme, hollendingi sem ákvað að selja allt sitt og ganga til Tíbet. Hann er nú kominn langleiðina að landamærum Þýskalands, gerir ráð fyrir að yfirgefa Holland á morgun. Gangan hefur ekki verið áfallalaus. Hann fékk blöðrur fyrir helgi og hafa þær háð honum, en eru þó að skána. Hann minntist á vandamal í sambandi við söluna á húsinu sínu, en fasteignasalinn ákvað að gera allt sem þeir gátu til að leysa hvað sem kæmi upp á svo hann gæti einbeitt sér að göngunni. Hann fór ekkert frekar út í það, en virtist vera mikið létt. Ernst segist vera á áætlun þrátt fyrir þetta og heimsókn til tannlæknis fyrir helgi.

Á blogginu sínu er hann búinn að birta áætlun yfir ferðina. Engar tímasetningar eru komnar, enn sem komið er, nema fyrir Holland (sjá neðst). Nú er bara að sjá hvernig gengur.

Ernst við Amerongen (NL) 11.04.2008Hollaland
Þýskaland
Tékkía
Slóvakía
Ungverjaland
Rúmenía
Búlgaría
Tyrkland
Sýrland
Líbanon (eða hugsanlega Jórdanía)
Ísrael (og þá ekki um Ísrael)
Sádi Arabía
Sameinuðu Arabísku Furstadæmin
Abu Dhabi
Dúbai ... yfir Hormuz-sund
Íran
Pakistan
Indland
2-3 vikna hvíld á Indlandi þar sem skoðað verður hvernig best er að komast inn í Tíbet gegn um Nepal.

Gangan að landamærum Þýskalands:
Alkmaar-Amsterdam 50km (7-4-2008)
Amsterdam-Utrecht 45km (9-4-2008)
Utrecht-Maarsbergen 27km (10-4-2008)
Maarsbergen-Veenendaal 32km (11-4-2008)
Veenendaal-Rhenen 12km (11 of 12-4-2008)
Rhenen-Beuningen 33km (12-4-2008)
Beuningen-Nijmegen 8km (12 of 13-4-2008)
Nijmegen-Kleef (D) 25km (13-4-2008)

Meira seinna. Endilega kvittið fyrir lestur svo ég sjái hvort áhugi sé fyrir frekari skýrslum. 


mbl.is Viðskiptaráðherra fer til Kína í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að fórna sér fyrir börnin

Þegar sú ákvörðun að eignast barn er tekin, veit maður að það þarf að fórna ýmislegu á meðan það er að vaxa úr grasi. Þetta á sennilega sérstaklega við um fyrstu árin. Það hefur margt farið öðruvísi en ætlað var á síðustu tveimur árum. Ég hef ætlað að gera margt en ekki farið í það vegna tímaskorts. Ég byrjaði til dæmis að skrifa handrit í fullri lengd fyrir um ári síðan, en ég hef aldrei komist í að klára það því alltaf er nóg að gera í kring um barnið. Þó hef ég reynt að vinna sem mest í kvikmyndagerðinni til að halda dæminu gangandi. Mest hafa þetta verið verkefni fyrir aðra. Hún hefur þó þurft að taka þriðja sætið, á eftir barnauppeldi og launaðri vinnu.

Í dag varð ég að gefa frá mér skemmtilegt verkefni. Mér var boðið að ferðast um Evrópu í þrjár vikur og kvikmynda merkilega staði. Þetta átti svo að nota í kynningarmyndbönd. Mér voru boðin góð laun með fullu uppihaldi. Hefði barnið ekki verið til staðar væri ég farinn.

Mats er auðvitað þess virði og ég hika ekki við að setja hann í fyrsta sæti, en þetta hefði verið skemmtilegt ævintýri. Við förum bara saman í Evrópuferð þegar hann hefur vit á því. 


Gangandi til Tíbet

Hollendingurinn Ernst van Damme lagði af stað gangandi frá heimili sínu í Alkmaar, Hollandi 1. apríl síðastliðinn. Hann kom við í Amsterdam og er nú á leið úr landi. Ferðinni er heitið til Tíbet. Hann gerir ráð fyrir að ganga 8000 kílómetra á 10 mánuðum og vonast til að hitta Dalai Lama á leiðinni. Hann mun ganga um Ungverjaland, Tyrkland, Abu Dhabi, suður Íran og Pakistan, meðal annars. Hann hefur lagt allt undir, seldi húsið sitt og innbú, bauð jafnel upp fötin sín á netinu. Það merkilega við manninn er að hann er ekki íþróttamaður. Þetta er ósköp venjulegur, fimmtugur maður með smá bumbu sem ákvað að gera eitthvað stórkostlegt.

Þegar ég komst að þessu fékk ég magaverk. Væri ég ekki í sambúð með ársgamalt barn hefði ég hringt í hann og slegist í för. Ég hefði tekið vídeótökuvélina og rölt þetta með honum. Þetta hefði verið stórkostlegasta ferðin sem ég hefði farið í og ég hefði eflaust getað gert merkilega mynd um ævintýrið. Ég er ennþá að reyna að jafna mig á því að geta ekki farið með.

Kannski kemur að því einhvern daginn að maður geri eitthvað sem skiptir máli en þar sem Tíbet hefur alltaf heillað mig hefði þetta verið fullkomið. Erfitt, en hverrar blöðru virði.

Þeir sem skilja hollensku geta fylgst með göngunni á blogginu hans. Fyrir hina mun ég fylgjast með ferðinni og leyfa ykkur að fylgjast með. 


mbl.is Gere telur að Kína eigi við djúpstæðan vanda að etja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hollenska Lausnin...

Það verður seint sagt að Holland sé stórt. Þó á þetta fólk það til að deyja og þar sem þeir eru síst minni en annað fólk, taka þeir jafn mikið pláss eftir dauðann og aðrir. Það er lítil rómantík og múður í þessu fólki og það sést á því hvernig offullum kirkjugörðum er haldið ungum. Hér er það nefninlega svo að þegar þú ert lagður til hvílu, er það ekkert endilega hinsta hvíla. Þú mátt liggja þarna í 15 ár. Að þeim tíma loknum fær fjölskyldan reikning á 10 ára fresti. Á meðan þessir reikningar eru borgaðir, hvílur þú í friði. Það er þá bara vonandi að komandi kynslóðir elski minningu þína eins mikið og þeir sem kvöddu þig á dánarbeðinu.

Hvað verður svo um fólk þegar reikningurinn hefur ekki verið greiddur? Það er grafið upp og annar jarðaður í staðinn, en hvað verður um líkið veit ég ekki. Fólk er ekkert að velta fyrir ser svoleiðis leiðindamálum. Þokkalegt veður í dag, ha? 


mbl.is Gjörið svo vel að deyja ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veitingahúsið Gullfaxi

Það er sjálfsagt að bjarga Gullfaxa ef hægt er. 80 milljónir eru ekki mikill peningur, einbýlishús í Reykjavík, B727-TFFIE-biar-01kannski? Auðvitað mun slatti bætast við, því það þarf að mála vélina og sennilega gera hana flughæfa. Svo þarf að finna sæti eins og þau sem notuð voru 1967 og endurskapa myndirnar sem voru um borð. Það er alveg viðbúið að verkið myndi ekki kosta innan við 250-300 milljónir. Stórt einbýlishús í Reykjavík?

En það er ekkert sem segir að Gullfaxi muni bara kosta pening. Hvernig væri að endurskapa flugvélamatinn sem boðið var upp á fyrir 40 árum og selja hann um borð þegar vélin er uppgerð og komin á safn? Hvað þyrfti að selja margar máltíðir til að ná inn fyrir kaupverði og lagfæringum? Fyrir utan að þetta myndi auka á upplifum þeirra sem koma á safnið.


mbl.is Fyrsta þota Íslendinga í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flug í hríð

Ég er að missa af þessari lægð ein og friðarsúlunni, en eins og sönnum íslendingi ber, hef ég lent í ýmsu sem útlendingar varla trúa. Ekkert merkilegt á okkar mælikvarða, en þó gaman að rifja það upp.

Fyrstu hremmingarnar sem ég man eftir voru uppi á Hellisheiði. Amma átti Land Rover sem hún notaði meðal annars í póstflutningunum í flóanum. Þetta byrjaði eins og venjuleg vetrarferð en það skall á blindbylur og enginn sá neitt. Hún keyrði fram á trukk sem var fastur og þurfti að stoppa. Allt í einu heyrum við mikið brambolt aftur í. Það var Toyota sem hafði ekki séð okkur og var komin vel inn í Land Roverinn. Þetta endaði þannig að afturhurðin var bundin föst því ekki var hægt að loka henni aftur.

Löngu seinna var ég að keyra leigubíl. Þetta var snemma að morgni og ég hafði verið að alla nóttina. Veðrið hafði verið til friðs, að mestu leyti, strekkingur og smá skafrenningur. Ég sæki fólk og keyri af stað suður í Keflavík. Veðrið versnaði hratt og við Voga var kominn blind bylur. Aksturinn gekk hægt og að lokum var ég farinn að nota vögguaðferðina. Þegar bíllinn hallar til hægri, beygja til vinstri og öfugt. Fyrir ofan Njarðvík var þetta orðið vonlaust mál, brottfarartíminn að nálgast og bílar fastir út um allt. Þegar við festumst þversum gafst ég upp. ...í nokkrar sekúndur. Ég kallaði í stöðina, sem hringdi og lét vita af farþegunum. Ég fór út og gróf bílinn upp með höndunum, ákvað að kaupa skóflu við fyrsta tækifæri, og komst upp af stað með hjálp vinalegs jeppaeiganda sem var í því að draga fólk upp úr sköflum. Við komumst út á flögvöll og ég heyrði seinna frá konunum tveimur að þær hefðu komist út í vél og í fríið. Það var þó kvartað yfir mér. Syninum, sem hafði ekki verið með, fannst þetta hafa tekið og langan tíma og kvartaði. Þegar mamman kom heim féll málið dautt því hún var svo ánægð með hvernig þetta fór.

Síðasta ævintýrið var svo 2. janúar 2000 þegar við vorum sjálf að fara af landi brott. Færðin til KEF var allt í lagi en völlurinn sjálfur var á kafi í snjó. Ekki var hægt að nota brýrnar, svo fólk varð að rölta út í vél. Þegar allir voru sestir sagði flugstýran að þetta myndi taka svolítinn tíma. Það þyrfti að grafa flugvélina upp. Hún kæmist ekki af stað. Hún sagði eitthvað fallegra á ensku svo að útlendingarnir yrðu ekki hræddir. Íslendingarnir þoldu sannleikann, virtist hún vera að segja.

Afsakið hugsanlega heimskulega orðaðar setningar og innsláttarvillur. Ég pikkaði þetta á ofsahraða áður en ég fór í vinnuna útá Schiphol. 


mbl.is Flutningi úr flugvélum lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leifsstöð er ekkert sprungin!

Eins og kemur fram í fréttinni er Keflavíkurflugvöllur notaður í tvo tíma, tvisvar á dag. Það er alls ekki hægt að segja að flugstöð sem er tóm 20 tíma á dag sé sprugin. Þetta er bara léleg nýting, nema á háannatímum.

Eftir því sem ég get best séð eru tvær lausnir í málinu. Fara út í framkvæmdir sem munu sjálfsagt kosta milljarða, eða að lækka lendingargjöld hlutfallslega utan annatímans.

Ég vinn á Schiphol, með um 40 milljónir farþega á ári. Munurinn á flugvöllunum er ranafjöldi, 11 í Keflavík, um 110 á Schiphol, en líka að Schiphol er í fullri notkun frá morgni til kvölds.

Það að nota rútur er svo ekkert sér fyrirbæri. Á Schiphol þarf líka að nota þessa lausn yfir háannatímann. Þar fyrir utan nota öll lággjaldafélög H-hliðin, sem eru ranalaus. Allt til að spara tíma og kostnað. Ef einhver vill ráða mig í vinnu við að gera Keflavíkurflugvöll betur í stakk búinn til að taka við fjórum milljónum farþega á ári, er ég til í að flytja heim.


mbl.is Leifsstöð sprungin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Diskurinn til Winnipeg?

Það er alltaf gaman að sjá hvað hópur vestur-íslendinga heldur í ræturnar. Það hefur verið ætlunin í mörg ár að fara til Kanada og skoða sig um í Winnipeg og annars staðar.

Kannski er það byrjun að ég sendi Svarta Sandinn á kvikmyndahátíðina sem fer þar fram í sumar. Nú er bara að bíða og sjá hvort tekið verði við henni. Ætli hún eigi meiri möguleika en annars staðar, eða eru áhrif Íslands kannski minni en maður heldur? Annars verður fólki auðvitað að líka myndin, annars gerist ekkert.

Diskurinn var þó ekki bara sendur til Kanada. Allir sem pöntuðu hann mega eiga von á honum á næstu dögum. Allir sem hjálpuðu til við gerð myndarinnar fá líka diskinn, því gamla útgáfan er úrelt. En hvað er á þessum diski?

Það eru fjórir matseðlar (athugasemd með íslenskri þýðingu á menu er vel þegin) í boði. Sá fyrsti býður upp á Black Sand (myndina með íslensku tali, enskum titlum og texta), Svartan Sand (allt á íslensku, þó ein mistök, því enskur texti britist (sem hægt er að slökkva á með Subtitles takkanum á fjarstýringunni)), Subtitles og Extras.

Sé Subtitles valmyndin valin fær áhorfandi að velja um að horfa á myndina með enskum, íslenskum, hollenskum eða sænskum texta.

Extras valmyndin er full að dóti sem ég henti inn, fólki til tímaeyðslu. Þar er hægt að velja Black Sand Theme. Þetta er nýja sýnishornið með nýju tónlistinni og útlitinu, sem ég setti í færslu fyrir um viku síðan. Einnig er Black Sand Trailer. Þetta er gamla sýnishornið og sýnir hve mikill munur er á endanlegu útgáfu myndarinna og þeirri fyrri. Black Sand Preview er fyrsta sýnishornið sem ég setti á netið haustið 2006, sýnishornið þar sem Emilíu er að dreyma. Þetta var reyndar atriði sem ég ætlaði að vinna úr, en það fór ekki lengra. Því næst er smábúturinn On the Set. Þar er hægt að sjá hvað okkur fannst leiðinlegt að gera myndina og hvað við vorum leiðinleg við hvort annað.

Previewið var ekki eina atriðið sem klippt var úr myndinni. Pétur, aðalpersónan, dó á söguöld í sínum torfkofa og Emilía, konan hans var heimsótt af látinni ömmu sinni. Þetta var ekki að virka eins og ég hefði viljað, svo ég klippti út bæði atriðin. Þriðja atriðið sem klippt var er það sem kallast Dance of Death í valmyndinni. Þar dansa aðalpersónurnar tvær meðan Emilía unga fylgist með, þar til allt er um seinan og dauðinn einn er framundan. Þetta var góð hugmynd í handritinu, en virkaði ekki í myndinni.

Síðasta valmyndin heitir einfaldlega Extra Extras og þar er hægt að sjá hluti sem ég hef gert en hafa ekkert með Svartan Sand að gera. Fyrst er sýnishorn úr gömlu myndinni, The Small Hours. Þetta var stuttmynd sem ég samdi og leikstýrði meðan ég var í námi. Við höfðum lítinn tíma og mig minnir að ferlið hafi verið tvær vikur, frá hugmynd til myndar. Hún var tekin upp á þremur nóttum, við vorum að frá kvöldmat til þrjú, fjögur, fimm að morgni og svo var farið í vinnu.

Síðan eru tvö myndbönd. Marike Jager syngur Focus. Þetta var reyndar sýnt á blogginu fyrir einhverjum mánuðum, en hér er þetta í DVD gæðum. Einnig er hægt að sjá Pispaal in de Wind eftir Rick Treffers. Þetta er eitt "myndbandanna" sem hann sýnir á risaskjá meðan hann spilar á tónleikum. Ekki myndband sem slíkt, svo ekki vil ég heyra folk vælandi yfir að það gerist svo lítið.

Þetta er sem sagt diskurinn sem fólk ætti að vera að fá í póst. Ég vona að ykkur líki og að þið látið vita hér að neðan. Þeir sem ekki hafa pantað diskinn geta gert það hér, eða með því að leggja inn á reikning 0325-26-000039, KT. 100569-3939. Öll framlög eru vel þegin, hvort sem það er hundraðkall eða hundraðþúsundkall. Greiði fólk meira en 1100 kr. eða 12 evrur mun ég senda disk. Ef ég næ að greiða upp kostnað með framlögum og öðru, mun ég skipta "gróðanum" með fólkinu sem hjálpaði til við gerð myndarinna, því allir unnu frítt.

Ég vona að ykkur líki. Takk fyrir stuðninginn! 


mbl.is Aldrei fleiri á þorrablóti í Ottawa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skjóta gæðinginn í hausinn

Ísland er alveg sérstaklega fallegt land... ennþá.

Ísland er sjálfstætt ríki... ennþá.

Ísland er ríkt... ennþá.

Hvers vegna er þessi árátta að virkja allt í bort, selja það fyrir tombóluverð, selja svo stóra hluti í fyrirtækjum til útlendinga svo hægt sé að græða eitthvað á landinu fallega.

Á meðan Írland, Svíþjóð og Finnland eru á hraðri leið inn í framtíðina eru íslendingar að rembast við að fara aftur um 100 ár. Af hverju þurfum við að halda baráttu Sigríðar Tómasdóttur í Brattholti áfram? Höfum við ekkert lært á þeim 100 árum sem liðin eru síðan hún barðist á móti gráðugum íslendingum og útlendingum sem vildu virkja Gullfoss og þannig eyðileggja eina af fallegustu perlum Íslands?

Það er kannski best að hætta þessu væli, virkja allt í botn strax og klára dæmið, því þegar skaðinn er skeður hefur vælið ekkert upp á sig. Skjótum gæðinginn í hausinn. Þá þurfum við ekki að rífast um það hvernig hann skal nýttur. 


mbl.is Goldman Sachs að kaupa hlut í Geysi Green?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband