Íslendingar erlendis

Vandi námsmanna var eitt það fyrsta sem fólk talaði um þegar krónan féll. Námslánin skruppu saman því minni gjaldeyrir fékkst fyrir krónurnar. Það hefði auðvitað átt að greiða námslán í gjaldeyri og umreikna í krónur, ekki öfugt. Svo er lokað á íslenska reikninga. Það sitja allir í súpu útrásarinnar, en þetta fólk sjálfsagt verst. Hvað gerir námsmaður með 10 evrur í vasanum og engað aðgang að peningum? Borgar hann ekki leiguna? Sleppur hann því að borða? Auðvitað þarf að kippa þessu í lag strax.

Einhver sagði við mig um daginn að ég væri heppinn að vera ekki heima. Ég er heppinn að því leyti að ég er í vinnu og fæ mín laun og það er betra ástand hér, enn sem komið er, en það er hrikalegt að horfa upp á landa sína berjast í bökkum. Það er hrikalegt að eiga ekki sjóð sem maður getur notað til að hjálpa. Það er erfitt að vera erlendis og geta ekkert gert nema lesa fréttir, blogga og svara spurningum útlendinga sem fá ekki nema brot af sögunni í fjölmiðlum ytra. Ég vildi frekar vera heima og reyna að hjálpa, þótt ég gæti sjálfsagt lítið gert. Ef eitthvað gott kemur út úr þessu er það vonandi að við förum að standa betur saman sem þjóð. Við erum öll íslendingar, hvar sem við erum.

Mig hefur lengi langað að koma heim. Vera alla vega með annan fótinn heima. Kvikmyndadæmið var mikið til hugsað sem leið að því marki. Það var ómögulegt þegar krónan var sterk og húsnæðisverð hærra en víðast hvar. Kannski get ég skoðað málið af einhverri alvöru í vetur. Þetta hljómar kannski eins og ég sé brosandi að bíða færis, en það er ekki málið. Ég myndi mikið frekar hafa ástandið eins og það var og aldrei komast heim sjálfur, en fyrst ástandið er eins og það er, má skoða þetta. Maður getur þá kannski hjálpað til við að byggja upp nýtt þjóðfélag á rústum þess gamla.

Ég hef heyrt af mörgum íslendingum erlendis sem vildu koma heim en gátu ekki. Það verður spennandi að fylgjast með því hvort margir flytji heim aftur þegar það er orðið mögulegt.


mbl.is Gríðarlegur vandi námsmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Sonur minn er námsmaður í Sviss. Fyrir mánuði síðan var húsaleigan sem þau borga (leigja 3 saman) 110.000 krónur á mánuði. Ég var að tala við hann á MSN og hann sagði gengið nú vera þannig að húsaleigan er komin í 440.000 krónur á mánuði.

Þau hafa ekki getað borgað skólagjöldin, sem líka hafa fjórfaldast í íslenskum krónum, en fengu frest hjá háskólanum.

Ótrúlegt ástand.

Lára Hanna Einarsdóttir, 10.10.2008 kl. 16:39

2 Smámynd: Árni Viðar Björgvinsson

Ég veit nú ekki af hverju það ætti að vera neitt auðveldara að koma heim núna en áður. Húsaleigan hefur ekkert lækkað og mun ekki, húsnæðisverð hefur ekkert lækkað og mun ekki... það eina sem lækkar er verðgildi launanna.

Árni Viðar Björgvinsson, 10.10.2008 kl. 23:33

3 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Já, vonandi lagast þetta. Sonur minn er nýkominn til Bretlands og ég veit ekki hvað verður.

Jórunn Sigurbergsdóttir , 11.10.2008 kl. 10:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband